Honum finnst best að vera berfættur
en kappklæddur að öðru leyti
Hann berar tásurnar
á fallega löguðum fætinum
Farðu nú í sokka
ætlarðu að verða lasinn?
segi ég í nöldurtón og bergmála
mömmu mína
hverf aftur til þess tíma
þegar tásurnar mínar
voru litlar og viðkvæmar
að þreifa á lífinu
Síðan hafa þær gengið
langa vegu
vegleysur einnig og hrjóstur
Sú ganga er rist
í sigggróna ilina:
sagan mín
Ég kalla á litlu manneskjuna
hún hleypur til mín, ég fer
höndum um lítinn fót
og blæs hita í tásurnar
ristar rúnum:
sögunni hennar
Svo fer litlu manneskjuna að kitla
og við hlæjum saman
því báðar höfum við dregið
(að minnsta kosti)
einn lærdóm af göngunni:
að meta lífið
Ljóðið birtist í ljóðabókinni Tásurnar (2019) og er hér lítið breytt

Leave a comment