Þessi grein, Gunnhildr konungamóðir og karlhórurnar, var flutt í enskri þýðingu minni á ráðstefnunni Sagas and societies sem haldin var í Borgarnesi árið 2002 og birtist í kjölfarið í vefútgáfu. Greinin hefur ekki áður birst á íslensku.
Inngangur
Gunnhildr konungamóðir er ein illræmdasta kvenpersóna miðalda, norræn, og kemur víða við fornar sögur. Heimildum ber jafnan að sama brunni, allsstaðar er Gunnhildi borin illa sagan, og henni er einatt lýst sem mjög viðsjálli konu, vergjarnri og oft fjölkunnugri.
Hér verður leitast við að skoða Gunnhildi í meðferð söguritara, þær heimildir sem að baki liggja, sannar og lognar, og ekki síst samskipti hennar við íslenska karlmenn. Reynt verður að bregða nýju ljósi á samband Gunnhildar við bændasyni ofan af Íslandi, sem sigldu til Noregs í leit að fé og frama, og leiddar að því líkur að þeir hafi selt Noregsdrottningu blíðu sína, til að greiða sér leiðina líkt og síðari alda gangnamenn sem leituðust við að blíðka beinakerlingar á fjallvegum.
Tröllkonan
Í forníslensku hafði orðið tröll merkinguna ‘fjölkunnug vera’.[1] Elsta ritaða heimildin um orðið tröll mun vera samsetta lýsingarorðið trollkund sem birtist í 9. aldar kvæðinu Ynglingatali eftir Þjóðólf af Hvini, og er orðið haft um göldrótta norn sem veldur því að mara treður Vanlanda konung til bana.[2] Tröll er víða haft um fjölkunnuga í íslenskum fornritum. Í Landnámu segir svo frá Geirhildi nokkurri að hún sé fjölkunnug kona og meinsöm og fyrir það sé hún kölluð ‘troll’.[3] Þegar líða tekur á 14. öld fer forna merking orðsins smám saman að víkja fyrir þeim vættum sem hafa skipað sér fastan sess í tröllasögum og ævintýrum, en þó eru dæmi þess að eldri merkingin hafi ratað inn í ævintýri á borð við Hundurinn Svartur.[4] Þar segir af ‘tröllkonum’ sem virðast í engu frábrugðnar venjulegu fólki, og halda heimili og búskap, en eru hins vegar rammgöldróttar. Enn í dag eimir eftir af þessari fornu galdramerkingu þegar samsettu orðin trölldómur og tröllskapur eru höfð um fordæðuskap.[5]
Gunnhildr konungamóðir er kennd við fjölkynngi og margkunnáttu bæði í íslenskum og erlendum heimildum. Hún er sögð fjölkunnug í Sögu Ólafs Tryggvasonar eftir Odd munk og í Haralds sögu hárfagra er hún vitur og margkunnig. Í Egils sögu Skalla-grímssonar er hún sögð vitrust og fjölkunnug mjög og einnig er nefnd fjölkunnátta hennar í Harðar sögu og Hólmverja. Í Brennu-Njáls sögu bregður Gunnhildr fjölkynngi fyrir sig og í öðrum Íslendingasögum þar sem Gunnhildar er getið af einhverju er hennar oftast minnst fyrir illsku og ójöfnuð. Erlendar heimildir hafa svipaða sögu að segja: Saxo minnist lítillega á Gunnhildi í Danasögu sinni og aðeins fyrir tröllskap og í norskum yfirlitsritum yfir ævi Noregs konunga eru lýsingar á drottningunni allar á sömu lund: Ágrip af Nóregskonunga sQgum segir af gjörningum Gunnhildar, og Nóregs konunga tal nefnir vísindi hennar, Theodoricus munkur segir hana illa og blóðþyrsta, og í einu elsta söguriti Norðmanna, Historia Norwegiæ, er Gunnhildr nefnd sínu rétta nafni, ill tröllkerling.
Gunnhildr er tröllkona og fær meðhöndlun sem slík; lýsingar á henni eru einatt mjög ýkjukenndar og ævintýralegar. Henni bregður mjög í svip tröllkvenna ævintýranna, þeirra sem búa við gjálífi, og þá einkum vondu stjúpunnar.
Vonda stjúpan
Í Haralds sögu hárfagra er að finna allítarlega lýsingu á því þegar konungsmenn finna Gunnhildi í gamma einum norður á Finnmörk. Enga höfðu þeir séð jafnvæna. Gunnhildr segist vera dóttir Össurar Háleygjabónda og að þarna sé hún í læri hjá fjölkunnugum Finnum: „,Ek hefi hér verit til þess“, segir hon, „at nema kunnostu at Finnum tveim, er hér eru fróðastir á mQrkinni. Nú eru þeir farnir á veiðar, en báðir þeir vilja eiga mik“.[6] Gunnhildr vill freista þess að drepa Finnana, felur konungsmenn og tekur til við að undirbúa komu heimamanna með klókindum sínum. Þegar Finnar snúa heim inna þeir Gunnhildi eftir mannaferðum en hún segir engan hafa komið. Þeir undra sig á sporum í snjónum en láta þar við sitja, elda sér mat og búa sig undir svefn. Svo hafði farið þrjár nætur áður að Finnarnir vöktu hvor yfir öðrum fyrir afbrýðissakir á meðan Gunnhildr svaf og býður nú Gunnhildr þeim að liggja sinn hvoru megin við hana. Þeir þiggja það fegnir og leggur hún handleggina um háls þeirra. Þeir sofna þegar, en hún vekur þá, enn sofna þeir og svo fast að hún fær varlega vakið þá, og enn sofna þeir og fær hún þá fyrir engan mun vakið þá. Þá steypir hún selbelgjum yfir höfuð þeirra og bindur rammlega fyrir neðan hendurnar. Hún gefur konungsmönnum bendingu og hlaupa þeir þá fram og vega Finnanna. Nóttina eftir skall á grimmdarlegt þrumuveður og urðu þeir að halda kyrru fyrir en að morgni fóru þeir til skips og færðu Eiríki Gunnhildi.[7] Fljótlega kemur í ljós hvern mann Gunnhildr hefur að geyma, þar sem sagan segir hana: „kvinna fegrst, vitr ok margkunnig, glaðmælt ok undirhyggjumaðr mikill ok in grimmasta“.[8]
Hér hefur ævintýrið sett mark sitt á sögu Haralds hárfagra: Þrítalan er á sínum stað, yndisfagurt viðfang, illmenni og bjargvættur, hér hillir í fönguðu prinsessuna og illvættina sem hnusar eftir mannaóþef og síðast en ekki síst birtist hér flagðið undir fögru skinni ungmeyjarinnar.
Heimur ævintýrisins er ætíð skammt undan í frásögnum af Gunnhildi og ekki fer fjarri að þær dragi nokkurn dám af þeim flokki ævintýra sem kallast stjúpmóðursögur. Vondar stjúpmæður finnast gjarna á afskekktum stöðum, fjarri allri siðmenningu. Þangað villa þær til sín menn og heilla með fegurð sinni og kurteisi og um leið og kóngur ber drottningarefni sitt augum verður hann einatt gagntekinn af ást til hennar. Stjúpur reynast oftast vera göldróttar og í íslensku sögunum reynast þær auk þess flestar hin verstu flögð en Einar Ól. Sveinsson telur það mega hafa verið fundið upp hér á landi.[9] Hins vegar segir hann oft vera erfitt að gera skýran greinarmun á norninni og tröllinu í stjúpunni, enda sé skammt þar á milli, þar sem tröll ævintýranna séu einatt göldrótt. Vondar stjúpur eru ávallt á höttunum eftir ríkidæmi og völdum en þá er æði algengt að þær fái ekki útrás hvata sinna í hjónasænginni með öldruðum kóngi og leggi þess í stað girnd á ungan ríkiserfingjann. Þær leitast við að vinna stjúpbörnunum mein og oftar en ekki beinist illskan gegn stjúpsonum þeirra fyrir að vilja ekki liggja hjá þeim. Sögur af vondu stjúpunni eru alþekktar um allan heim og sömuleiðis hafa þær átt verulegum vinsældum að fagna á Íslandi. Stjúpuminnið hefur verið orðið alþekkt hér um 1200 en það er ekki fyrr en um 1300 sem heimildir segja söguna skýrt og styttingarlaust.[10]
Elsta íslenska heimildin, sem varðveist hefur, um Gunnhildi er Saga Ólafs Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason, sem mun vera frá 1170-1190. Í formála að sögunni minnist Oddur á „stivp meðra saugvr er hiarðar sveinar segia er enge veit hvart satt er. er iafnan lata konungia minztan isinvm frasognum“.[11] Þó það sé fjarri Oddi að færa sögu sína í búning ævintýrisins kann lýsing hans á Gunnhildi vel að hæfa trölli, norn af öðrum heimi; hún er fjölkunnug, full af flærð og prettum og kunnug af mörgum sviksamlegum hlutum.[12]
Í flestum heimildum um Gunnhildi finnst hún á norðurhjara veraldar, frá þeim heimshluta sem áður fyrr þótti hinn ógnvænlegasti í Evrópu. Þar bjuggu óvættir og tröll, galdramenn og hirðingjar. Gunnhildr heillar konungsmenn með fríðleika sínum og þeir færa hana konungi. Fljótlega sýnir hún sitt rétta eðli og gerist mjög ráðrík enda er Eiríkr sagður mjög áhlýðinn og er henni kennt um skapskipti hans, eins og kemur fram í Ágripi: „maðrinn var ofstopamaðr ok greypr ok allra mest af ráðum hennar“.[13] Gunnhildr spillir ríki konungs og kenna allir henni um ofríki og ólög í landinu. Fleira á hún sameiginlegt með vondu stjúpunni því hún er fégjörn og fíkin í völd eins og fram kemur í Nóregs konunga tali, þar sem hún er sögð „ærit gjQrn til fjár ok landa“.[14] Eftir fall Eiríks hefur hún landráð með sonum sínum, hún er einatt nefnd konungamóðir og synir hennar eru jafnan kenndir við hana.
Gunnhildr er ekki eiginleg stjúpmóðir þar eð engin eru stjúpbörnin. Þó líkist hegðun hennar og hlutverk mjög því sem einkennir vondar stjúpmæður ævintýranna þegar hún gerir sér dælt við íslenska bændasyni og er sem þeir verði fyrir stjúpmæðra sköpum í návist hennar. Gunnhildr tælir unga menn til ásta en gegnir í senn hlutverki e.k. móður, eða fóstru, hún er þeim ráðsettari og oftast eldri, a.m.k. eftir að hún er orðin ekkja, og má því segja að hlutverk þessarar ástleitnu konungamóður sé á margan hátt hliðstætt hlutverki stjúpmóðurinnar.[15] Í Jómsvíkinga sögu er Gunnhildr sögð vergjörn og víða er látið að því liggja að hún hafi verið holdnáin ungum mönnum.[16] Í Egils sögu er látið í það skína að hún og Þórólfr hafi átt í ástarsambandi þar sem sagan segir að „kærleikar miklir váru með þeim Þórólfi ok Gunnhildi“, og er það áréttað í orðum Eiríks konungs þegar hann minnir hana á að „,verit hefir kærra við Þórólf af þinni hendi en nú er“.[17]
Mun berorðari er lýsingin í Njáls sögu á kynlífi Gunnhildar og Hrúts. Gunnhildr er orðin ekkja og ekki verður um villst hvað hún hefur í hyggju þegar hún gefur Hrúti skipanir, á borð við: „Þú skalt liggja í lopti hjá mér í nótt, ok vit tvau saman“.[18] Síðan segir sagan að þau ganga til svefns, Gunnhildr læsir loftinu að innan og þau sofa þar um nóttina „ok allan hálfan mánuð lágu þau þar tvau ein í loptinu“.[19] Þegar þau kveðjast vill Gunnhildr vita hvort hann eigi konu í festum á Íslandi, hann neitar og reiðist Gunnhildr honum fyrir að trúa sér ekki til málsins. Hún hegnir honum með því að leggja á hann og mælir hún svo um: „þá legg ek þat á við þik, at þú megir engri munúð fram koma við konu þá, er þú ætlar þér á Íslandi, en fremja skalt þú mega vilja þinn við aðrar konur”.[20] Og hafa þessi ósköp mjög afdrifaríkar afleiðingar úti á Íslandi. Í Laxdæla sögu er hvergi að finna stafkrók um holdnáin samskipti Gunnhildar og Hrúts en hins vegar eru Gunnhildi lögð í munn mörg dásamleg orð um mannkosti Hrúts og þegar þau skilja að skiptum virðist annað og meira felast í látæði hennar en vinarþel eitt. Hún gefur honum gullhring að skilnaði, biður hann vel að fara og „gekk snúðigt heim til bæjar“.[21] Í Laxdælu segir einnig lítillega af samskiptum Gunnhildar og Ólafs pá. Gunnhildr leggur á hann miklar mætur þegar hún veit að hann er bróðursonur Hrúts og segir sagan að konungur tók honum vel „en Gunnhildr miklu betr“.[22] Frásögn Laxdælu lætur lítið yfir sér en orðspor Gunnhildar í söguheiminum gefur enn tilefni til að ætla að meira búi að baki en vinskapurinn einn, enda vitnar til þess almannarómur, því „sumir menn kQlluðu þat, at henni þætti þó skemmtan at tala við Óláf, þótt hann nyti ekki annarra at“.[23]
Stjúpmæður ævintýranna eru þekktar af því að leggja girnd á stjúpsyni sína en ef þeir vildu ekki liggja hjá þeim var lífi þeirra hætt. Til eru frásagnir af illsku Gunnhildar þegar hún fær ekki sínu framgengt. Í Flóamanna sögu segir frá því þegar Þorgils örrabeinsstjúpur afþakkar boð Gunnhildar um hirðvist og hún bókstaflega sparkar í hann: ,,Drottning varð reið ok spyrndi fæti sínum til hans ok hratt honum frá hásætinu“.[24] Vegna orðspors Gunnhildar er freistandi að skýra harkaleg viðbrögð hennar af því að Íslendingurinn vill ekki liggja með henni og ef hugmyndaraflinu er gefinn laus taumurinn þá kann að vera hægt að sjá fæð hennar á sonum Skalla-Gríms í nýju ljósi; kynferðislífi Gunnhildar bíður hnekki, þegar Þórólfr snýr við henni baki og Egill virðir hana að vettugi, og verður það bræðrunum dýrkeypt.
Gunnhildr konungamóðir er orðuð við einn mann sem stendur henni mun nær að tign og ætterni en íslensku sveitastrákarnir og er það Hákon jarl. Samband þeirra er allsérstakt eins og kemur fram í Haralds sögu gráfeldar: „Þá gerðisk kærleikr mikill með þeim Hákoni jarli ok Gunnhildi, en stundum beittusk þau vélræðum“.[25] Ekki eru fleiri orð höfð um ástríki þeirra á milli og hafa svikular ráðagerðir þótt verðari frásagnar. Í Ágripi greinir svo frá að Hákon reynist slægari Gunnhildi í ráðum og lyktar þeirra samskiptum með því að hann fær Harald Danakonung til þess að ginna Gunnhildi til Danmerkur með fláráðu bónorði og fagurgala. Gunnhildr lætur blekkjast og um leið og hún kemur til Danmerkur er hún leidd að mýri einni og drekkt þar. Gunnhildr hlýtur verðskulduð örlög fyrir svik sín og illræði: í Ágripi er látið að því liggja að Gunnhildr hafi átt þátt í dauða Tryggva konungs, sem réði Raumaríki í Noregi samtímis því sem Gunnhildr og synir hennar fóru með völd, og með fláræði og svikum reynir hún að ná til sín konungsarfanum, Ólafi Tryggvasyni, til að varna þess að hann komist til valda.[26] Ólafr kemst undan með móður sinni en Gunnhildr lætur sjálf leiða sig í dauðann. Afdrif Gunnhildar sæma mjög gamalli og vergjarnri norn og eru það síðasta sem heimildir kunna frá henni að segja. Frásögnin hefur ratað inn í sögurit Theodoricusar munks sem kann að herma hana eftir Íslendingum ef að marka má formála hans um vægi íslenskra heimilda.[27] Þessi illu örlög Gunnhildar eru einnig að finna í yngri og ýkjukenndari sögum, á borð við Jómsvíkinga sögu og Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu en í þeirri síðarnefndu er leitt út af dauða Gunnhildar og er athyglinnar vert að þar er Ólafur Tryggvason hvergi nefndur á nafn en hins vegar er sem nokkurrar samúðar gæti með Finnum, lærimeisturum Gunnhildar:[28] „Fór þar, sem ván er, at illt upphaf fékk illan enda, því at Gunnhildr hafði grimmliga, sem fyrr var sagt, Finnana svikit, sína meistara“.[29]
Það er sem kynningin á þessari stórbrotnu og stórlátu konu hafi þótt heldur daufleg til frásagnar og því verið skreytt ævintýraminnum, á borð við vondu stjúpuna sem hefur leitað lags í slagtogi við fleiri þekkt minni. Hér er líkt á komið fyrir stórkostlegum frásögnum af Gunnhildi eins og stendur í formálsorðum þeim sem fara fyrir sögunni af Fertram og Ísól björtu: „Hvurki bar til titla né tíðinda, frétta né frásagna, nema logið væri og stolið væri, vildi ég ei minni sögu svo færi, þó mundi ég ei spara ef á lægi því lygin kom ekki fyrr en sjö áum eftir að þetta var“.[30]
Skrattinn hittir ömmu sína
Ævintýraminni eru víða að finna í fornsögum og hefur minnið um vondu stjúpuna m.a. ratað inn í fornaldarsögurnar Gríms sögu loðinkinna og Hrólfs sögu kraka. Stjúpurnar, Hvít og Grímhildur, eru báðar fjölkunnugar og auk þess að reynast vera tröll í eðli sínu, þó svo að aðeins Hvít sé kölluð því nafni, eru þær báðar af Finnmörk og má því ætla að um sé að ræða galdrahyski af samísku þjóðerni.[31] Finnar voru orðlögðustu galdramenn á Norðurlöndum í fornöld og var galdrakunnátta þeirra algengt þjóðsagnaefni.
Allar íslenskar frásagnir sem skýra frá uppruna Gunnhildar segja hana koma frá endimörkum Noregs. Í Sögu Ólafs Tryggvasonar, Haralds sögu hárfagra og Noregs konunga tali er hún sögð háleysk að ætterni, og í sögu Egils finnst hún á Bjarmalandi. Gunnhildr er útlendingur í ríki Norðmanna og svipar að nokkru til hinnar fögru Finnu sem kemur við sögu Haralds hárfagra. Þegar Haraldr konungur er að jólaveislu í Upplöndum vélar Svási jötunn hann til að fara heim með sér. Þar bíður Snæfríður, dóttir Svása, kvenna fríðust og byrlar hún konungi fullt ker mjaðar. Þá er sem eldshiti komi í hörund hans og vill hann þegar hafa samræði við Snæfríði þá nótt en Svási segir það verða að sér nauðugum nema að konungur gangi að eiga hana. Konungur lætur til leiðast, fær Svanhildar og „unni svá með ærslum, at ríki sitt ok allt þat, er honum byrjaði, þá fyrir lét hann“.[32] Þau eignast fjóra syni og síðan deyr Snæfríður en hörund hennar skiptir ekki litum og hún er jafn rjóð á hörund eins og þegar hún lifði. Konungur situr yfir henni í þrjá vetur í þeirri von að hún lifni við en allur landslýður syrgir hann villtan. Það bráir ekki af konungi fyrr en líkið er fært í önnur klæði og það breytist í illþefjandi og iðandi kös af alls kyns illyrmum. Sagan endurtekur sig þegar Gunnhildr ærir son Haralds hárfagra, Erík blóðöx, til ásta við sig og veldur því kynngikraftur hennar. Gunnhildi bregður nokkuð í svip Sama og kemur það einna best fram í viðskiptum hennar við Egil Skalla-Grímsson.
Í Egils sögu er Gunnhildr sögð „allra kvenna vænst ok vitrust og fjQlkunnig mjQk“,[33] og segir sagan að miklir kærleikar voru milli hennar og Þórólfs en ekki líður á löngu þar til slær i brýnu á milli hennar og sona Skalla-Gríms: Skömmu eftir að Egill kemur út til Noregs drepur hann kæran vin konungshjóna, Atleyjar-Bárð. Þeir bræður hljóta af reiði konungshjóna og þó svo að konungur þiggi sættir hyggur drottning á hefndir. Hún vill sjá blóði þeirra bræðra úthellt og hefjast nú víg á báða bóga sem lyktir með drápi konungssonar og magnþrungnu níði Egils sem veldur því að konungshjón verða að flýja Noreg. Egill fer heim til Íslands en gerist brátt ókátur og veldur því Gunnhildr sem lét það seiða, að Egill skyldi aldrei ró bíða á Íslandi, fyrr en hún sæi hann. Galdurinn veldur því að Egill fer á fund konungshjóna og þar bregður sagan upp mynd af hamhleypunni Gunnhildi. Þegar Egill reynir að yrkja lof um Eirík konung til lausnar höfði sínu fær hann enga ró fyrir klaki svölu sem situr við gluggann. Þegar Arinbjörn hersir fer að aðgæta málið sér hann að þar sem fuglinn hafði áður setið, að ,,hamhleypa nQkkur fór annan veg af húsinu”.[34] Samískir galdramenn voru taldir kunna þá list betur en margur að bregða sér í gervi ýmissa dýra og vætta. Hér má og marka lærdóm Gunnhildar af vísi Finnana og trölldómi, því eins og Hermann Pálsson bendir á þá er Gunnhildr frægasti galdranemi sem um getur í fornsögum.[35] Hins vegar má betur ef duga skal í viðureign Gunnhildar við Egil því að þar hittir skrattinn fyrir ömmu sína.
Egill Skalla-Grímsson er vart nema hálfmennskur. Langamma hans í föðurætt, Hallbera, var systir Hallbjarnar hálftrölls. Niðjar Hallbjörns eru þeir víðfrægu Hrafnistumenn sem segir frá í Fornaldar sögum Norðurlanda. Hrafnistumenn eru einatt kenndir við samnefnda eyju sem liggur fyrir Naumudölum í landi Háloga en norðan við Hálogaland eru einungis óbyggðir. Í fornaldarsögunum er að finna margar sögur af erjum Hrafnistumanna og stríði við viðsjála nágranna. Ketill hængr og Grímur loðinkinni leita oft á mið norður fyrir eyjuna þar sem ýmsar illvættir og fjölkunnugar verur verða á vegi þeirra en þeim er sjaldnast hætt þar sem þeim er það í blóð borið að ráða niðurlögum stórvætta og fjölkynngismanna: „Eru þeir feðgar meir lagðir til þess er aðrir menn at drepa niðr tröll ok bergbúa.[36] Egill sver sig í ætt Hrafnistumanna, og er í öllu skaplíkur föðurætt sinni, og auk þess kann fjölkunnug fóstra hans, Þorgerður brák, að hafa kennt honum einhvern galdur, þó að það sé látið ónefnt.[37] Með þessa arfleifð og ramma orðkynngi að vopni kemst Egill lifandi af fundi þeirra konungshjóna; lokafundur þeirra Egils og Gunnhildar er í Jórvík á Englandi og vill Gunnhildr láta drepa hann en fyrir skáldgáfu sína,ráð Arinbjarnar og náð konungs fær hann höfuðlausn, og lýkur þar þeirra viðskiptum.
Egill og Gunnhildr eiga sér svipaðan bakgrunn og báðum er þeim á vissan hátt stillt upp gegn norska ríkinu. Þau eru útlendingar í jaðri konungsríkisins, utangarðsfólk, frá Útgarði veraldar. En þó svo að Gunnhildr eigi engum vinsældum að fagna á meðal Norðmanna þá er hún eftir sem áður drottning í ríki sínu og Egill er hirðmaður, í þjónustu hennar. Þrátt fyrir þennan aðstöðumun verður ekkert lát á karlrembuhroka Egils: Hann yrðir aldrei á Gunnhildi og varla nefnir hana í kvæðum. Með þessum hætti afneitar hann henni sem andstæðingi, honum verðugum.
Köld eru ráð karla
Flestum þeim heimildum sem fjalla um uppruna Gunnhildar ber saman um að hún sé dóttir Össurar, sem er ýmist auknefndur toti eða lafskeggur, og eigi inni í óbyggðum norðursins. Þá sjaldan sem íslenskar heimildir skýra frá uppruna Gunnhildar er hún einatt sögð dóttir Össurar frá Hálogalandi, eins og kemur fram í Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk, Haralds sögu hárfagra og í Egils sögu. Þrjár norskar heimildir nefna uppruna Gunnhildar og eru tvær saman um söguna af háleysku faðerni hennar: Ágrip af Nóregskonunga sQgum og Noregs konunga tal. Guðbrandur Vigfússon mun fyrstur hafa skorið úr um að þarna sé að finna mikla missögn[38] og hafa fræðimenn síðan haft fyrir satt það sem frá greinir í Historia Norvegiæ. Sá sem saman setti þessa latnesku frásögn er ókunnur og eru skiptar skoðanir um ritunartíma hennar, en hún gæti verið einhvers staðar frá tímabilinu 1150-1200. Sagan er eina heimildin sem greinir frá dönskum uppruna Gunnhildar því þar er hún er sögð dóttir dönsku konungshjónanna Gorms heimska og Þyri Danmarkar bót.[39] Þrátt fyrir göfugan uppruna er Gunnhildi ekki borin vel sagan, hér sem annars staðar, því hún er sögð vera ill tröllkerling, dramblát og óguðrækin.
Ef skyggnst er á bak við ævintýralegar frásagnir af Gunnhildi glittir í raunverulega, sögulega persónu, eiginkonu og móður, sem er uppi á 10. öld (d. 999). Það er athyglinnar vert að í Ágripi segir um jafn stórkostlega persónu að hún sé „allra kvenna fegrst, lítil kona sýnum“ [40] og í Nóregs konunga tali er sömuleiðis minnst á fegurð hennar og að hún sé „ekki mikil kona“.[41] Það má undrun sæta að smáfríð og pen danaprinsessa fái slíka meðferð sem raun ber vitni.
Elstu heimildir um Gunnhildi munu vera norsku þjóðarsögurnar[42] en öllu ríkulegri eru frásagnir Íslendinga af konungamóðurinni og víst er að þær hafa átt hvað mestan þátt í að móta mýtuna um Gunnhildi. Mest kveður af Gunnhildi í Egils sögu en eins og áður hefur komið fram þá virðir Egill Gunnhildi að vettugi. Að sama skapi tala Íslendingasögur sínu máli þegar Gunnhildr er látin hverfa sporlaust af sjónarsviðinu, aðeins konungasagnir greina frá afdrifum hennar. Gunnhildr er þó engin kotungsdóttir; hún hefur bæði auð og vald, og víst hefur hún verið stórlát. Sigurður Nordal skýrir stórlæti Gunnhildar af göfugu ætterni hennar og konungshugsjón þeirri sem hún hefur með sér úr föðurgarði: Gunnhildr hefur viljað siða Noregsmenn og hljóta heiðursnafn á borð við það sem móðir hennar bar með sóma í Danmörku; Gunnhildr vildi verða Noregs bót, en í stað þess varð hún Norðmanna plága, ógæfa sjálfri sér og öðrum.[43] Sigurður telur Gunnhildi hafa verið á undan sinni samtíð, en sé misskilin og fái því þessa meðferð íslenskra munnmæla og sagnaritara: Öllu virðist öfugt snúið, segir hann, hún kemur ekki að sunnan, frá þroskaðra þjóðskipulagi og menningu, heldur að norðan, úr fásinni og frumstæðum kjörum. Hún er ekki boðberi framtíðarinnar, heldur fulltrúi forneskjunnar. Stefnufesta hennar er gerð að ofsa, ráðspeki hennar að fjölkynngi, framkvæmdir hennar að töfrum.[44] En alltaf skín í gegn hversu stórbrotin kona Gunnhildr hefur verið og ættgöfug og furðar Sigurður sig á því hversu fáránlega meðferð Gunnhildr fær í Historia Norvegiæ þar sem hún er rétt feðruð.
Þessi óréttmæta meðferð á Gunnhildi þarf vart að sæta furðu og eru mörg dæmi þess í sögunum að sterkar konur og áhrifamiklar fái illa útreið. Skemmst er að minnast örlaga Hallgerðar langbrókar þar sem sagan skilur við hana í hópi illmenna og bergmála niðrandi orð Skarphéðins bága stöðu hennar: „Ekki munu mega orð þín, því at þú ert annathvárt hornkerling eða púta“.[45] Annað nærtækt dæmi er írska drottningin Kormlöð en um hana er farið óvægnum orðum: „hon var allra kvenna fegrst ok bezt orðin um allt þat, er henni var ósjálfrátt, en þat er mál manna, at henni hafi allt verit illa gefið, þat er henni var sjálfrátt“.[46] Konur þessar eru líkt og Gunnhildr málsvarar hins illa í sögunum. Stundum fá stórlátar konur viðlíka meðferð og skessur í fornum sögum, eins og Yngvild fagurkinn í Svarfdælasögu. Helga Kress segir að helsta ráð karla við slíkum skössum sé að beita þær valdi með vopnum og telur hún íslenskar fornbókmenntir einstæðar fyrir að sýna „samhengi milli kúgunar kvenna og hins íslenska karlveldis á þeim tíma sem það er að myndast. Aðferðirnar sem karlarnir nota eru fyrst og fremst vopnavald og fóstbræðralög, en einnig ofbeldi og svik. Möguleikar kvenna í þessu samfélagi eru kúgunin, útlegðin eða dauðinn“ .[47]
Þessar sterku kvenpersónur eru einkum verðar frásagnar fyrir að skera sig úr fjöldanum því þegar grannt er skoðað eru heimildir fátæklegar um konur sem gerendur á þjóðveldisöld. Konur voru fjarri valdastöðum samfélagsins og félagsleg staða þeirra var mun veikari en karla; þær gátu ekki haft áhrif eða tekið pólitískar ákvarðanir nema óbeint í gegnum karlanna. Í lagasafninu Grágás, frá s.hl. 13. aldar, má sjá ólík viðhorf miðaldamanna til kynjanna og er stór munur á stöðu karla og kvenna.[48] Agnes S. Arnórsdóttir bendir þó á að þrátt fyrir að Grágás hafi að geyma fjöldamörg lagaákvæði sem takmarki réttindi kvenna þá hafi staða kvenna verið í mörgu önnur en lögin gáfu til kynna, eins og marka megi m.a. af Sturlungu.[49] Þar fara sögur af miklum kvenskörungum sem höfðu áhrif á atburðarás sögunnar, með beinum eða óbeinum hætti: „Konur klæddust ekki brynju eða héldu á sverði, en eggjuðu menn til dáða og voru leiðbeinendur þeirra og ráðgjafar í pólitískum hildarleik“.[50] Agnes segir þó jafnframt konurnar fleiri í Sturlungu sem ekki eru annað en nöfnin tóm enda fór máttur kvenna mjög eftir stöðu þeirra: „Hjónabandið gaf húsfreyju á stórhöfðingjabýli óbein pólitísk áhrif gegnum eiginmanninn, og bein völd í krafti stöðu sinnar“.[51] Konur gátu þó aldrei hagnast eins á hjúskaparstöðu sinni og karlar og eftir því sem á leið miðaldir versnaði hlutur kvenna. Kenning Agnesar er sú að í upphafi þjóðveldistímans hafi ríkt meira valdajafnvægi, ekki bara milli ætta, heldur einnig milli ólíkra valdasvæði kvenna og karla innanstokks sem utan.[52]
Konur réðu innanstokks en þær þurftu alltaf að beygja sig undir vald karla. Hér kann að liggja skýringin á illri meðferð sagnaritara, á Gunnhildi konungamóður; ætterni hennar skiptir ekki máli, það sýnir sig að henni er hvergi vægt þó hún sé drottning Noregs, og einungis er að henni sótt fyrir að vera kvenmaður sem hefur sig í frammi. Helga Kress bendir á að þegar um ræðir hinar sterku konur íslenskra fornbókmennta blandi menn saman hugtökunum sterkur og frjáls. Þær sterku konur sem þessar bókmenntir lýsa eru ekki frjálsar en þær eru sterkar og neita að láta kúga sig, án árangurs en mótmæli þeirra sjást alls staðar í textanum: „Þannig er barátta karlanna við sterkar konur, kúgun kvenna og hins kvenlæga í samfélaginu og körlunum sjálfum, eitt af meginviðfangsefnum þessara bókmennta“.[53] Það er athygli vert að í Laxdæla sögu er farið mun mildari höndum um Gunnhildi en í öðrum heimildum, og er þar hvergi að finna stafkrók um illan hug drottningar, enda hefur því verið haldið fram að höfundur Laxdælu hafi verið kona.
Tvær konur fjölkunnugar koma við Egils sögu sem eitthvað kveður að, sem eru Gunnhildr og Þorgerðr brák.[54] Konurnar eru eins ólíkar og sól og máni. Þorgerðr brák er stór og mikil ambátt, sterk sem karlar og fjölkunnug mjög. Hún er sögð hafa fóstrað Egil í barnæsku en hennar er hvergi getið fyrr en hún veður nánast formálalaust fram á sjónarsviðið til að skakka illan leik feðganna á Borg. Skalla-Grímr er í knattleik við þá félaga Egil og Þórð Granason og mæðist mjög fyrir þeim. Þegar sólin er sest gerist hann hins vegar svo sterkur að hann grípur Þórð og keyrir svo fast niður að hann fær þegar bana. Þegar hann síðan grípur son sinn birtist Þorgerðr, fyrirvaralaust:
Brák mælti: „Hamask þú nú, Skalla-Grímr, at syni þínum“. Skalla-Grímr lét þá lausan Egil, en þreif til hennar. Hún brásk við ok rann undan, en Skalla-Grímr eptir; fóru þau svá í útanvert Digranes; þá hljóp hon út af bjarginu á sund. Skalla-Grímr kastaði eptir henni steini miklum ok setti milli herða henni, ok kom hvártki upp síðan; þar er nú kallat Brákarsund.[55]
Auknefni Þorgerðar er talið vera verkfæri það sem haft var til að elta í skinn og hefur þröngt sundið sennilega minnt fornmenn á lagið á brákinni en verkfærið hefur líklega verið til á hverjum bæ. Þorgerður hefur sjálfsagt haft þann starfa á bænum að bráka skinn enda ambátt og með afl sem karlmaður. Hlutverk Þorgerðar í sögunni kann að vera til að skýra örnefnið á sundinu en einnig, og ekki síður, sýnir þáttur hennar skapofsa Skalla-Gríms. Það er engin eftisjá að Þorgerði í sögunni og þó að henni sé eignað fóstur Egils þá er það vafalítið aðeins að nafninu til og til þess eins að skýra afskipti hennar af Agli og umhyggju. Það er ekki að sjá að neinn eftirmáli verði af vígi Þorgerðar: Þegar Egill drepur eftirlætis hjú föður síns þá er mun líklegra að hann sé að hefna fyrir víg Þórðar sem sagan segir að hafði lengi fylgt honum í miklu vinfengi. Helga Kress hefur fjallað um dráp Þorgerðar og segir þar um:
Samkvæmt yfirlýstri siðfræði íslenskra fornbókmennta eru konur ekki drepnar. Sá mælikvarði gildir þó engan veginn um afbrigðilegar konur, þ.e. þær sem ógna samfélagi karla með visku sinni eða óhlýðni. Seiðkonur og fjölkunnugar konur eru réttdræpar í því samfélagi sem þessar bókmenntir lýsa.[56]
Helga segir að venjulega eru þessar konur grýttar eða þeim er drekkt, sem reynast örlög þessara tveggja kvenna, Þorgerðar brákar[57] og Gunnhildar konungamóður.
Þær fáu heimildir sem skýra frá afdrifum Gunnhildar eru samhljóma um að henni er drekkt eins og hverri annarri norn og sýnast málagjöldin makleg þar sem Gunnhildr er sögð bæði grimm og göldrótt. Sigurður Nordal telur hugmyndir um fjölkynngi Gunnildar tilkomnar þar eð það þótti með ólíkindum hversu miklu hún réð og orkaði. Þegar leitað var skýringa þá var engin eðlilegri en að hún hefði numið hana norður á Finnmörk og væri sjálf ættuð af þeim slóðum.[58] Þ.e.a.s. það þótti með ólíkindum hversu mikil ráð voru á hendi konu! Gunnhildr býr yfir sterkum persónuleika og er valdameiri en flestir karlmenn í kringum hana. Í Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk er Gunnhildr sögð hvorki meira né minna en „drottning Noregs veldis“.[59] Vald hennar birtist ekki síður í áhlýðni eiginmanns hennar, Eiríks blóðaxar, og að synir þeirra eru aldrei kenndir við föður sinn heldur einatt kallaðir Gunnhildarsynir, m.a.s. eru ríkisstjórnarár þeirra kölluð „Gunnhildar Qld“.[60]
Gunnhildr konungamóðir er ögrun við karlmennskuna, manndóm hetjanna. Það varð að leita lausna með því að gera tröllkonu úr þessari mikilhæfu og stórlátu konu og um leið er hún gersneydd öllu mannlegu. Hamslaus og dýrsleg kynhvöt Gunnhildar hefur ratað inn í heim alþýðusagna eins og Jónas Jónasson frá Hrafnagili hermir frá í riti sínu um Íslenzka þjóðhætti en þar segir um vísindi Gunnhildar:
Til þess er þjóðsaga þessi: Gunnhildr konungamóðir var kona ærið marglát, og sagt er, að hún hafi breytt sér í líki ýmsra dýra, til þess að ná samblendi við karldýrin. Reynslu sína frá þeim viðskiptum er svo sagt hún hafi orðað svo: „Linskeyttur foli, harðskeyttur boli, fæstar hygg eg dándismeyjar lambhrútinn þoli“.[61]
Karlhórur
Í þjóðarsögum Norðmanna og Íslendinga er ekki mikill matur gerður úr kynhegðun Gunnhildar en hins vegar eru kynferðislegar lýsingar og hegðun einkar áberandi í Íslendingasögunum. Sagnaritarar miðalda voru karlmenn og því má vænta að kvenlýsingar taki óhjákvæmilega mið af því. Gunnhildr er þ.a.l. ímynd búin til af körlum, sprottin af kynferðisórum íslenskra bænda.
Fjöldi frásagna frá miðöldum skýra frá ferðum Íslendinga til Noregs til að afla sér fjár og frama. Íslendingar gengu gjarna fyrir konung, gerðust þeirra menn, hlutu viðurkenningu og þáðu af þeim gjafir.Þær söguhetjur miðalda sem hér hafa verið ræddar og orðaðar eru við Gunnhildi eiga allar einhverra hagsmuna að gæta í Noregi, hvort heldur sem þær fara til þess að heimta arf, eins og Hrútr og Þorgils örrabeinsstjúpur eða leita sér vegsemdar og valda eins og Þórólfr og Ólafr pá. Oddr Snorrason munkur segir Gunnhildi vera drottningu alls Noregsveldis.[62] Það er bert að slík kona sat á miklum valdastóli og því til mikils að vinna fyrir íslenska bændasyni að gleðja hana ef þeir vildu koma sínum málum í höfn.
Eins og áður hefur komið fram er víða látið í það skína að meira hafi farið á milli drottingar og íslenskra bænda en kunningsskapur einn. Það er vart búið að kynna Gunnhildi til Egils sögu þegar sagan segir hana eiga í kærleiksríku sambandi við Þórólf Skalla-Grímsson. Á meðan Þórólfr er í náðinni er hann vel haldinn við hirðina og hann snýr heim til Íslands eftir mikla fremdarför, með vináttu konungshjóna og „ógrynni fjár og dýrgripi marga“.[63] Þórólfr fer utan öðru sinni, þrátt fyrir að faðir hans letji hann, afþakkar boð konungs um hirðvist og snýr þar með baki við drottningunni og hlýtur reiði hennar. Fleiri sögur fara af reiði drottningar og er eftirminnilegust lýsing Flóamanna sögu á því þegar Gunnhildr sparkar í Þorgils örrabeinsstjúpa og hrindir honum bókstaflega og á táknrænan hátt frá hásætinu svo hann má sín einskis; án vináttu drottningar er hann réttlaus útlendingur:[64] „[Drottning] varnaði honum þá fjárins ok sagði hann eigi kunna at þiggja sóma sinn“.[65]
Hrútr sér hins vegar sinn hag vænstan í faðmi drottningar, eins og kemur berlega fram í Njáls sögu, og í orðræðu Gunnhildar kemur skýrt fram til hvers er að vinna fyrir Hrút: „Ef Hrútr ferr mínum ráðum fram, þá skal ek sjá um fémál hans ok um þat annat, er hann tekr at henda. Ek skal ok koma honum fram við konunginn“.[66]Gunnhildr tekur Hrút undir sinn verndarvæng og sinnir öllu í hvívetna sem honum viðkemur; lagamáli hans, klæðaburði, viðtökum konungs og ekki síst líkama hans.[67] Þegar Hrútr sér sínum málum borgið hyggur hann að heimferð og blekkir Gunnhildi á þeirra viðkvæmustu stund, á kveðjustundinni. Hins vegar sýnast tilfinningar Gunnhildar í garð Hrúts vera ósviknar. Í Laxdæla sögu segir svo frá að:
Gunnhildr dróttning lagði svá miklar mætur á hann, at hon helt engi hans jafningja innan hirðar, hvárki í orðum né Qðrum hlutum; en þó at mannjafnaðr væri hafðr ok til ágætis manna talat, þá var það Qllum mQnnum auðsætt, at Gunnhildi þótti hyggjuleysi til ganga eða Qfund, ef nQkkurum manni var til Hrúts jafnat.[68]
Þegar þau skilja gefur Gunnhildr honum gullhring að skilnaði og biður hann vel að fara en síðan segir atferli hennar meira en nokkur orð, hún: „brá síðan skikkjunni at hQfði sér ok gekk snúðigt heim til bæjar“.[69] Háttalag Gunnhildar er eins og endurómur úr Njálu sem ljær frásögninni dýpri merkingu; um svik og afbrýði elskenda. Gunnhildr reynist síðan frænda Hrúts, Ólafi Höskuldssyni, miklu betur en vel þó svo að Hrútr hafi svikið hana. Þegar Ólafr vill sigla til Írlands styrkir Gunnhildr hann til ferðarinnar:
Þá mælti Gunnhildr: „Ek skal fá þér styrk til ferðar þessar, at þú megir fara svá ríkuliga sem þú vill.“ Óláfr þakkar henni orð sín. Síðan lætr Gunnhildr búa skip ok fær menn til, bað Óláf á kveða, hvé marga menn hann vill hafa með sér vestr um hafit; en Óláfr kvað á sex tigu manna ok kvazk þó þykkja miklu skipta, at þat lið væri líkara hermQnnum en kaupmQnnum. Hon kvað svá vera skyldu.[70]
Af framangreindu sést gjörla að íslenskir bændasynir voru vel á vegi staddir ef þeir létu að óskum Gunnhildar og þóknuðust henni í hvívetna. William Sayers segir heimildir þegja yfir því hvers vegna þessir Íslendingar féllu allir fyrir töfrum, eða töfrandi útliti, Gunnhildar.[71] Mín kenning er sú að þessir menn voru að greiða götu sína, faðmur Gunnhildar var ávísun á þeirra velferð, og því hljóta þeir að vera réttnefndar karlhórur.
Aftanmálsgreinar
[1] Einar Ól. Sveinsson hefur bent á tengsl nafnorðsins við sögnina trylla: ‘fylla með jötunmóði, kynngi, æra’, til að bregða frekara ljósi á forna merkingu nafnorðsins (Um íslenzkar þjóðsögur, 144). Sögnin trylla er leidd af germönsku orðmyndinni < *trullian < *truzlian, og var forn merking sagnarinnar ‘að bregða einhverjum um fjölkynngi’. Slíka merkingu er enn að finna hjá nágrannaþjóðum, sbr. trylle í dönsku: ‘að töfra, galdra’, trylla í nýnorsku: ‘að heilla, trylla, töfra’ auk þess sem svipuð hugsun liggur að baki miðháþýsku sagnarinnar trüllen: ‘að gera einhverjum sjónhverfingar, heilla, svíkja’.
[2] Finnur Jónsson: Den norsk-islandske skjaldedigtning I, 7 ; Ynglingasaga, 20-21.
[3] Landnámabók Íslands, 115-116.
[4] Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri V, 77-82.
[5] Árni Böðvarsson: Íslensk orðabók, 1064.
[6] Heimskringla I, 135.
[7] Í Nóregs konunga tali segir einnig af fundi Eiríks og Gunnhildar á Bjarmalandi í erfidrápu um Eirík sem Gunnhildr lét yrkja og kemur þar fram að hún var „ á fóstri ok at námi með MQttul Finnakonungi; sá var allra fjQlkunnigastr“ (bls. 79).
[8] Heimskringla I, 149.
[9] Einar Ól. Sveinsson: Um íslenzkar þjóðsögur, 223.
[10] Einar Ól. Sveinsson: Um íslenzkar þjóðsögur, 222.
[11] Saga Óláfs Tryggvasonar, 2.
[12] Saga Ólafs Tryggvasonar, 17.
[13] Ágrip af Nóregskonunga sQgum, 7.
[14] Nóregs konunga tal, 74.
[15] Íslendingarnir sýnast vera rétt af unglingsaldri, enda bráðþroska menn að viti og afli, t.d. er Þorgils örrabeinsstjúpur sautján vetra og Ólafr pái átján vetra.
[16] Jómsvíkinga saga, 80.
[17] Egils saga Skalla-Grímssonar, 94; 123.
[18] Brennu-Njáls saga, 15.
[19] Brennu-Njáls saga, 15.
[20] Brennu-Njáls saga, 21.
Áhrínsorðin minna óneitanlega á álög Ingibjargar konungsdóttur sem fram koma í Helga þætti Þórissonar. Þar segir frá því þegar Helgi er hrifinn í ‘tröllahendur’ og dvelur hjá Ingibjörgu á Glæsisvöllum, dóttur Guðmundar kóngs. Með hjálp Ólafs helga losnar Helgi úr ánauðinni en við aðskilnaðinn blindar Ingibjörg Helga og segir konur í Noregi muni hans „skamma stund njóta” (Helga þáttr Þórissonar, Fornaldar sögur Norðurlanda IV, 353).
[21] Laxdæla saga, 44.
[22] Laxdæla saga, 60.
[23] Laxdæla saga, 52.
[24] Flóamanna saga, 254.
[25] Heimskringla I, 211.
[26] Þessa sömu frásögn er einnig að finna í sögum Ólafs Tryggvasonar, bæði í Heimskringlu og Flateyjarbók. Tilraunir Gunnhildar til þess að ná Ólafi Tryggvasyni til sín ungum minna á frásögn Biblíunnar af því þegar Heródes ofsótti Krist
[27] Sjá m.a. grein Bjarna Guðnasonar: Theodoricus og íslenskir sagnaritarar.
[28] Í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eru fáein ævintýri af Dýrfinnu, hinni íslensku Mjallhvíti. Í einu tilbrigði sögunnar bregður svo undarlega við að þar eru hjálparmennirnir, sem koma í stað dverganna, tveir Finnar eins og segir í sögunni: „Lifir hún og lifir vel / og lifir góðu lífi, / fæða hana Finnar tveir / fátt er henni að meini“ (Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri V, 5).
[29] Flateyjarbók I, 167.
[30] Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II, 308.
[31] Sjá m.a. Hermann Pálsson: Úr landnor›ri. Samar og ystu rætur íslenskrar menningar.
[32] Heimskringla I, 126.
[33] Egils saga Skalla-Grímssonar, 94.
[34] Egils saga Skalla-Grímssonar, 183.
[35] Hermann Pálsson: Úr landnorðri. Samar og ystu rætur íslenskrar menningar, 135.
[36] Gríms saga loðinkinna, 189.
[37] Þórólfi Skalla-Grímssyni virðist hins vegar engin kynngi í blóð borin, hann er líkur nafna sínum og frænda, Þórólfi Kveld-Úlfssyni, sem var manna vænstur og vinsæll af öllum mönnum, og má sín lítils í viðureign þeirra bræðra við Gunnhildi. Þá vekur það grunsemdir að skömmu eftir að Þórólfr fellur í ónáð hjá drottningu fellur hann í bardaga á Vínheiði, og kann að valda því fjölkynngi Gunnhildar (Sayers, William: Power, Magic and Sex: Queen Gunnhildr and the Icelanders, 64).
[38] Sigurður Nordal: Gunnhildur konungamóðir, 144.
[39] Den eldste Noregs-historia, 35-36.
Það kemur á óvart hversu Saxo gerir Gunnhildi lítil skil, hann nefnir hana t.d. ekki á nafn þar sem hann ræðir um konungshjónin Gorm og Tyre. Ástæðan kann að vera sú að Saxo styðst mjög við íslenskar heimildir og heimildamenn og á ritunartíma Danasögunnar, í byrjun 13. aldar, virðist norskur uppruni Gunnhildar hafa verið útbreiddur misskilningur.
[40] Ágrip af Nóregskonunga sQgum, 7.
[41] Nóregs konunga tal, 74.
[42] Historia Norvegiae (1150-1200), Historia de antiquitate regum Norwagiensium (um 1180), Ágrip af Noregskonunga sQgum (1180-1200), Nóregs konunga tal (um 1220).
[43] Sigurður Nordal: Gunnhildur konungamóðir, 148.
[44] Sigurður Nordal: Gunnhildur konungamóðir, 150-151.
[45] Brennu Njáls saga, 228.
[46] Brennu-Njáls saga, 440.
[47] Helga Kress: Skassið tamið, 61.
[48] Sjá: Agnes S. Arnórsdóttir: Viðhorf ti l kvenna í Grágás og Gunnar Karlsson: Kenningin um fornt kvenfrelsi á Íslandi.
[49] Agnes S. Arnórsdóttir: Konur og vígamenn. Staða kynjanna á Íslandi á 12. og 13. öld, 19.
Skoðanir fræðimanna á hlutskipti kvenna á miðöldum eru skiptar, hvort sem er á Íslandi eða í Evrópu allri: Agnes S. Arnórsdóttir bendir á að „fræðimönnum sem fjallað hafa um íslenskar konur á miðöldum má skipta í tvo hópa. Sumir telja að íslenskar konur hafi almennt haft meiri réttindi og notið meiri virðingar en kynsystur þeirra í Evrópu. Aðrir hafa halda því fram að þótt íslenskar konur hafi alls ekki verið án allra réttinda, þá hafi þær ekki notið meiri valda eða virðingar en konur almennt í Evrópu á sama tíma (Konur og vígamenn, 21) . Þegar litið er til evrópskra kvenna eru skoðanir um hlutskipti þeirra einnig mjög skiptar eins og Judith M. Bennett bendir á í grein sinni um feminískar miðaldarannsóknir: „Some feminsit medievalists argue that the Middle Ages were a high point for women, a time when women enjoyed more oppertunities and higher status than would be the case in the modern era; others argue that little changed in women´s status from the medieval to the modern era. Some feminist scholars depict medieval women as active agents who, despite some obstacles, asserted considerable control over their lives and destinies; others tend to see medieval women as victims whose lives were ever circumscribed by patriarchal constraints (Medievalism and Feminism, 321).
[50] Agnes S. Arnórsdóttir: Konur og vígamenn. Staða kynjanna á Íslandi á 12. og 13. öld, 198.
[51] Agnes S. Arnórsdottir: Konur og vígamenn. Staða kynjanna á Íslandi á 12. og 13. öld, 201.
[52] Agnes S. Arnórsdóttir: Konur og vígamenn. Staða kynjanna á Íslandi á 12. og 13. öld, 202.
[53] Helga Kress: Skassið tamið, 62.
[54] Einnig er nefnd Þórarna nokkur, nágranni Skalla-Gríms, og er hún sögð fjölkunnug en hennar er ekki af öðru getið og er hún strax úr sögunni.
[55] Egils saga Skalla-Grímssonar, 101-102.
[56] Helga Kress: Máttugar meyjar, 50.
[57] Segja má að Þorgerðr brák sé grýtt samstundis því að henni er drekkt.
[58] Sigurður Nordal: Gunnhildur konungamóðir, 141.
[59] Saga Óláfs Tryggvasonar, 8.
[60] Nóregs konunga tal, 202.
[61] Jónas Jónasson: Íslenzkir þjóðhættir, 165; neðanmálsgrein 4.
[62] Saga Ólafs Tryggvasonar, 152.
[63] Egils saga Skalla-Grímssonar, 95.
[64] Frásögn Flóamanna sögu er allsérstök fyrir að geyma slíka lýsingu sem þessa á niðurlægingu aðalsöguhetjunnar sem bíður auk þess lægri hlut fyrir konu. Fleira merkilegt er að finna í þessari 14. aldar frásögn og með undarlegri lýsingum Íslendingasagna er þegar Þorgils tekur á það ráð að gefa móðurlausum brjóstmylkingi á brjóst, og breytir sér þar með nánast í konu.
[65] Flóamanna saga, 254.
[66] Brennu-Njáls saga, 12.
[67] Jafnvel kann fjölkynngi Gunnhildar að hafa komið Hrúti til hjálpar í bardaganum við Atla útlaga í Eyrarsundi (Dronke, Ursula: The Role of Sexual Themes in Njáls Saga, 7).
[68] Laxdæla saga, 44.
[69] Laxdæla saga, 44.
[70] Laxdæla saga, 52.
[71] Sayers, William: Power, Magic and Sex: Queen Gunnhildr and the Icelanders, 72.
Heimildir
Agnes S. Arnórsdóttir. 1986. Viðhorf til kvenna í Grágás. Sagnir, 7, 23-30.
___. 1995. Konur og vígamenn. Staða kynjanna á Íslandi á 12. og 13. öld.
Háskólaútgáfan. Reykjavík.
Ágrip af Nóregskonunga sQgum, Íslenzk fornrit XXIX. 1985. Hið íslenzka fornritafélag.
Reykjavík.
Árni Böðvarsson. 1988. Íslensk orðabók. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
Bennett, Judith M. 1993. Medievalism and Feminism. Speculum. A Journal of Medieval Studies. 68:2, 309-331.
Bjarni Guðnason. 1977. Theodoricus og íslenskir sagnaritarar. Sjötíu
ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni I, 107-120. Stofnun Árna Magnússonar.
Reykjavík.
Bjarni Einarsson. 1970. Brákarsund. Árbók hins íslenzka fornleifafélags.
Ísafoldarprentsmiðja. Reykjavík.
Brennu-Njáls saga, Íslenzk fornrit XII. 1954. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.
Clover, Carol J. 1993. Regardless of Sex: Men, Women, and Power in Early Northern
Europe. Speculum 68:2, 363-387.
Dronke, Ursula. 1981. The role of sexual themes in Njáls saga. University College.
London.
Egils saga Skalla-Grímssonar, Íslenzk fornrit II. 1933. Hið íslenzka fornritafélag.
Reykjavík.
Einar Ól. Sveinsson. 1940. Um íslenzkar þjóðsögur. Hið íslenzka bókmentafjelag.
Reykjavík.
Den eldste Noregs-historia. 1921. Umsett frå latin ved Haldvdan Koht. Frumtitill:
Historia Norvegiae. Det norske Samlaget. Oslo.
Finnur Jónsson. 1967-73. Den norsk-islandske skjaldedigtning A og B (I-II ).
Rosenkilde og Bagger. København.
Flateyjarbók I. 1944. Útg. Sigurður Nordal. Flateyjarútgáfan. Akranes.
Flóamanna saga, Íslenzk fornrit XIII. 1991. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.
Gríms saga loðinkinna, Fornaldar sögur Norðurlanda II. 1981. Útg. Guðni Jónsson.
Íslendingasagnaútgáfan. Reykjavík.
Gunnar Karlsson. 1986. Kenningin um fornt kvenfrelsi á Íslandi. Saga, XXIV, 45-77.
Harðar saga, Íslenzk fornrit XIII. 1991. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.
Helga Kress. 1993. Máttugar meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga. Háskólaútgáfan. Reykjavík.
___. 1994. Skassið tamið; stofnun karlveldis og kúgun hins kvenlæga í íslenskum fornbókmenntum. Fléttur; rit rannsóknastofu í kvennafræðum. Háskólaútgáfan, 35-64.
Helga þáttr Þórissonar, Fornaldar sögur Norðurlanda IV. 1981. Útg. Guðni Jónsson.
Íslendingasagnaútgáfan. Reykjavík.
Hermann Pálsson. 1997. Úr landnorðri. Samar og ystu rætur íslenskrar menningar. Studia
Islandica 54. Bókmenntafræðistofnun H.Í. Reykjavík.
Jómsvíkinga saga. 1969. Útg. Ólafur Halldórsson. Prentsmiðja Jóns Helgasonar hf.
Reykjavík.
Jón Árnason. 1961-68. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I-VI. Útg. Árni Böðvarsson og
Bjarni Vilhjálmsson. Þjóðsaga. Reykjavík.
Jónas Jónasson. 1945. Íslenzkir þjóðhættir. Jónas og Halldór Rafnar. Reykjavík.
Landnámabók Íslands. Udgiven efter de gamle håndskrifter…1925. Útg. Finnur
Jónsson. H.H. Thieles bogtrykkeri. Kaupmannahöfn.
Laxdæla saga, Íslenzk fornrit V. 1934. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.
Nóregs konunga tal – Fagrskinna, Íslenzk fornrit XXIX. 1985. Hið íslenzka fornritafélag.
Reykjavík.
Oddr Snorrason. 1932. Saga Ólafs Tryggvasonar. Útg. Finnur Jónsson. G.E.C. Gads
forlag. København.
Petre, G. Turville. 1951. The heroic age of Scandinavia. Hutchinson´s university library.
London.
Sayers, William. 1995. Power, Magic and Sex: Queen Gunnhildr and the Icelanders,
Scandinavian-Canadian Studies VIII, 57-77.
Saxo Grammaticus. 1975. Danmarks Krønike. Oversat af Fr. Winkel Horn. Frumtitill:
Historia Danica. København.
Sigurður Nordal. 1941. Gunnhildur konungamóðir. Samtíð og saga. Nokkrir
háskólafyrirlestrar I. Ísafoldarprentsmiðja h.f. Reykjavík.
Snorri Sturluson. 1912. Ynglingasaga. Útg. Finnur Jónsson. Gad. København.
___ . 1979. Heimskringla. Íslenzk fornrit XXVI-XXVIII. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.
Sørensen, Preben Meulengracht. 1977. Starkaðr, Loki og Egill Skallagrímsson. Sjötíu
ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni II, 759-768. Stofnun Árna Magnússonar. Reykjavík.
Theodoricus, Monachus. 1998. An account of the ancient history of the Norwegian kings.
Transl. David and Ian McDougall. Frumtitill: Historia de antiquitate regum
Norwagiensium. Viking Society for northern research university college London.

Leave a comment