Það skiptir engu

það skiptir engu

ég fór á mis við að velta því fyrir mér hvort þú yrðir drengur eða stúlka

ég fór á mis við allar andvökunæturnar þegar þú vildir drekka, varst með magakveisu og tókst tennur

ég fór á mis við að sjá örla fyrir fyrstu munnherkjunum sem ég hefði vissulega kallað bros

ég fór á mis við að sjá þig skríða, standa upp og ganga völtum skrefum í áttina til mín

ég fór á mis við að heyra þig segja mamma í fyrsta skipti

en hverju skiptir það þegar ég fæ að horfa á þig sofa með hálfopinn munninn og hlusta á værðarhljóðin?

en hverju skiptir það þegar ég fæ að horfa á þig borða og hlusta á krúttlegt kjamsið við eldhúsborðið?

en hverju skiptir það þegar ég fæ að hlusta á þig syngja hástöfum lagstúfinn sem þú lærðir á leikskólanum?

en hverju skiptir það þegar ég fæ að halda utan um þig og hugga þegar þú grætur sárt?

en hverju skiptir það þegar ég fæ að gleðjast með þér þegar þú hlærð þínum einlæga og bjarta hlátri?

engu

Leave a comment