Umskiptingurinn í Hrólfsey – Orkneyskar þjóðsögur

Einu sinni var kona í Hrólfsey sem eignaðist barn. Þetta var fallegt og heilbrigt barn og augasteinn hreykinna foreldra sinna. En það breyttist. Barnið lasnaðist og fór að veslast upp og horast. Móðirin varð afar áhyggjufull og bað vitra konu í héraðinu um hjálp. Vitra konan kom að sjá barnið og virti það lengi fyrir sér. Móðirin lagði hart að henni að finna út hvað amaði að barninu, hún var orðin nær frávita af áhyggjum. Vitra konan sagði að barnið hennar hefði verið tekið af álfum og að þeir hefðu skilið eitt af þeirra eigin börnum eftir þess í stað. Hún sagði móðurinni að ef hún vildi endurheimta barn sitt yrði hún að fara upp að hamravegg sem kallast Sinianshamarinn. Hann er uppi á hæðinni fyrir innan Mucklevatn. Hún yrði að hafa með sér fleyg úr stáli og Biblíuna. Þar myndi hún finna skoru á ákveðnum stað í hamrinum og hún yrði að reka fleyginn í gegnum sprunguna. Þá myndi hamarinn opnast og hún sæi konu sitja með barnið hennar á hnénu. Hún mætti ekki segja orð heldur ætti hún að slá álfkonuna þrisvar sinnum í framan með Biblíunni. Þá yrði hún að snúa sér við án þess að gefa frá sér eitt einasta hljóð og fara aftur heim til sín.

Móðirin tók stálfleyg og Biblíu og stefndi upp hæðina að hamraveggnum. Hún fann skoruna í veggnum, eins og vitra konan hafði látið um mælt, og stakk stálfleygnum inn. Hamarinn opnaðist og þarna sat álfkonan með barnið á hnénu. Álfkonan reyndi hvað hún gat að fá konuna til þess að tala en allt kom fyrir ekki. Konan mundi hvað vitra konan hafði sagt henni og mælti ekki orð af vörum. Hún hóf Biblíuna á loft og sló álfinn þrisvar sinnum í framan, og með það fór hún. Hún hljóp við fót heim til sín, milli vonar og ótta. Þegar hún var komin inn í húsið var barnið hennar þegar komið þangað eins feitlagið og heilbrigt og þegar það var hrifið í burtu.

Sagan birtist í þýðingu minni Orkneyskum þjóðsögum

Leave a comment