Orðabókarskilgreiningar á orðinu „maður“ eru þrjár skv. malid.is. Í fyrsta lagi að maður sé „karl eða kona, manneskja.“ Dæmið um það er t.d. orðasambandið „þróun mannsins“. Önnur skýring á orðinu er „karlmaður“ og tekið er dæmið: „hún sá mann ganga yfir götuna.“ Þriðja skýringin er „eiginmaður“ og tekin er dæmi setningin: „maðurinn hennar er læknir.“
Þessar skilgreiningar sýna svo ekki verður um villst að orðið „maður“ er ekki einungis notað um manneskju af báðum (öllum) kynjum. Það er ekki síður haft um karlmann eingöngu og hefur sú merking orðsins rutt sér mjög til rúms. Fjöldi kvenna tengir alls ekki við orðið og kýs að vísa til sín sem kvenna en ekki manna.
Til eru andstæðupör á borð við kven- og karlmaður og kona og karl sem standa til hliðar við orðið „maður“ í merkingunni bæði (öll) kyn. Þessi andstæðupör eru þó afar óheppileg. Kerling er náskyld karli, leidd af orðinu „karl“ með viðskeytinu „-ing“, enda hírast þau jafnan saman í koti ævintýranna. Þar með er karlinn upptekinn og þeim mun eðlilegra að tala um konu og mann.
Sumir amast við andstæðuparinu kona og maður en það er alls ekki nýtt í málinu, því fer fjarri. Það má meira að segja finna dæmi um það frá fyrri hluta 17. aldar, í Ritmálssafni Árnastofnunar. Í þýðingu Guðbrands biskups Þorlákssonar eru höfð eftir honum orðin: „Veralldleg Ekta-Hioon / Madur og Kona“. Þá þekkir alþjóð bókartitilinn Mann og konu eftir Jón Thoroddsen (1818-1868) en hann hafði víst einnig látið sér detta í hug titiinn: Karl og kerling, skv. umfjöllun um skáldið á Vísindavefnum.
Þegar fjallað er um tungumálið er gjarnan stoð í orðabókum. Orðabókarskilgreiningar eru þó ekki hoggnar í stein og taka breytingum frá einni útgáfu til annarrar. Á meðan tungumálið er í notkun þá verða orð úrelt, breyta um merkingu og ný orð verða til. Það eru fyrst og fremst málnotendur sem breyta tungumálinu. Bæði konur og menn.

Leave a comment