Bókin lifir

Árið 1983 birtist grein í Dagblaðinu Vísi þar sem Árni Snævarr veltir fyrir sér hvað verði um bókina í svonefndri frístundabyltingu sem er framundan. Hann spyr hvort bókin muni eiga í „vök að verjast fyrir auðmeltu afþreyingarefni.”

Í greininni kemur fram að dregið hafi úr bóksölu og er einkum vídeóglápi og kapalsjónvarpi kennt um. Árni vill gjarna sjá hver staða bókar verði í framtíðinni í „þjóðfélagi örtölvu, sjálfvirkni og stóraukins frítíma.” Til þess arna ræðir hann við Ólaf Jónsson, gagnrýnanda DV, og Pétur Gunnarsson rithöfund.

Pétur Gunnarsson telur að handan við hornið sé frístundabylting og að staða bókarinnar muni breytast en hún haldi sérstöðu sinni, því fáir ef nokkrir miðlar aðrir ná jafn einstöku sambandi við einstaklinginn. Ólafur tekur í svipaðan streng. Hann telur ekki að lestur fari minnkandi og ræðir einnig sérstöðu bókarinnar. Bækur verði e.t.v. í auknum mæli skrifaðar til að rata á hvíta tjaldið og sömuleiðis færist lesmálið inn í tölvur en eftir standi lestur og skrift.

Það eru 38 ár liðin frá því að ofangreind grein birtist. Þessi umræða er því ekki ný af nálinni og hefur jafnvel aukist enda ekki einungis við vídeóglápið að etja. Vissulega hefur aukið aðgengi að ýmiss konar afþreyingu haft áhrif og dregið úr sölu bóka en bókin heldur enn velli og meira að segja svo að nú fyrir jólin varð 30% auking í sölu bóka. Pétur og Ólafur voru því sannspáir: Bókin lifir!

Leave a comment