Einu sinni fyrir langa löngu bjuggu kóngur og drottning í ríki sínu og tveir menn í koti sínu. Dag einn komst annar maðurinn að raun um að hann væri ófrískur og varð þá aldeilis kátt í kotinu. Þegar barnið fæddist sagði annar maðurinn við hinn að mikið væri nú ánægjulegt að þeir eignuðust svona fallegt barn. Þeir vonuðust eftir að barnið héldi fríðleika sínum þegar það væri orðið fullvaxta maður því þá gæti hann mögulega orðið heppilegt mannsefni fyrir kóngssoninn sem ekki var enn genginn út.
Annar maðurinn sinnti barninu og kenndi því öll þau húsverk sem hver maður þarf að kunna. Hinn maðurinn gekk til starfa utanhúss, því verkaskiptingin var mjög skýr þarna fyrir austan sól og vestan mána. Barnið óx og dafnaði og varð loks að ungum manni. Hann hélt blessunarlega fríðleika sínum og varð þá aftur kátt í kotinu. Sú stund rann upp að tímabært var fyrir manninn að heilla kóngsson upp úr skónum, eða a.m.k. öðrum þeirra. Það gekk vonum framar enda hafði kóngssonur aldrei séð jafn fríðan mann. Þeir lifðu síðan vel og lengi og eignuðust börn og buru. Margir þekktir menn eru komnir út af þeim, m.a. Ása, Signý og Helga!

Leave a comment