Minni Hallgerðar

Frá Laugarnesinu má líta úfið haf

og akurbleik fjöll

og birtist þá

Hallgerður

ein af fáum konum

Íslendingasagna, með nokkur

hold á beinum.

Hún fær þó heldur slæma útreið

í karlasamfélagi Njálunnar.

Barnung

fær hún harðan og undarlegan dóm

frá frænda sínum.[1]

Líklega hefur hún ekki verið nógu

undirleit

þegar frændinn virti hana fyrir sér

og jafnvel ekki nógu

eftirlát.

Hallgerður stendur alla tíð

ein

gegn feðraveldinu

og einungis fóstri hennar, sem er

erlendur verkamaður[2],

kemur henni til hjálpar.

En meira að segja hann

snýst gegn

henni

er á reynir

orð hans og æði benda til

að hann hafi sjálfur girnst

hana.

Þrígift og allir leggja þeir á

hana

hendur, þar á meðal hin góða

og gegna hetja

Gunnar á Hliðarenda

sem atyrðir hana í boðinu á Bergþórshvoli

í stað þess að verja heiður

hennar.

Bergþóra fær örlítið rými

á blaðsíðum Njálu

en hún ver feðraveldið

með kjafti og kartnöglum[3]

enda er hún

„drengur góður“.

Lítilsvirt og smánuð

er Hallgerður bæði hornkerling

og betlikerling[4]

Hallgerði er ævinlega

kennt um dauða Gunnars

þar sem hún neitaði honum um lokk

úr hári sínu

til að snúa í bogastreng,

þegar hans brast.

Það er þó ekki hægt að búa til

bogastreng úr mannshári

en vel er hægt að búa til

blóraböggul úr

konu!

Ekki mátti falla skuggi á hetjuna

Gunnar frá Hlíðarenda

og alla duglegu karlana

í kringum hann.

Það má einungis vona að

Hallgerður

eigi einhvern séns

í samfélagi nútímans


[1] Til upprifjunar: Hrútur segir Hallgerði vera með þjófsaugu og munu margir gjalda þess hversu fögur hún er.

[2] Er ekki óhætt að segja að vígamaður sé verkamaður?

[3] Hún lætur það t.d. yfir sig ganga, líkt og margar konur á þessum tíma, að karl hennar skegglausi eigi hjákonu og barn í lausaleik.

[4] Í boðinu á Bergþórshvoli er Hallgerði vísað úr sæti og sett út í horn og síðan er hún neydd til að þiggja mat frá gerendum sínum.

Ljóðið birtist í Metsölubókinni: Broddum

Leave a comment