Í gufunni í morgun sat skammt frá mér eldri maður sem ók sér á bekknum, stundi mjög og rumdi. Mér leist ekki á blikuna og velti fyrir mér hvort ég ætti að spyrja hann hvort hann væri nokkuð að sálast. Ég kom mér nú ekki til þess því ég varð svo upptekin við að hugsa um þetta orðalag og annað áþekkt sem hugsanlega færi betur á, sumsé hvort hann væri mögulega að kálast? Andast? Gefa upp andann? Hrökkva upp af? Syngja sitt síðasta? Deyja drottni sínum? O.s.frv. Mitt í þessum hugleiðingum mínum stóð blessaður maðurinn upp, sprelllifandi og staulaðist út úr klefanum. Þá gat ég loksins farið að hugsa aftur um lífið.
Mynd: JGT

Leave a comment