Mér hefur verið nokkuð hugleikið undanfarið kvæði Davíðs Stefánssonar Konan sem kyndir ofninn minn. Kvæðið, sem birtist í Nýjum kvæðum árið 1929, þekkja flestir Íslendingar og þá ekki hvað síst vegna lags Sverris Helgasonar sem hann samdi við textann og mörg hafa flutt.
Í tímaritinu Árdísi frá árinu 1964 fylgir sú skýring kvæðinu að þar sem aðsetur skólapilta voru köld og óvistleg greiddu þeir fáeina aura fyrir að kveikt væri upp í ofni svefnherbergisins snemma morguns svo að það væri orðið hlýtt þegar þeir fóru á fætur. Þau sem þessu sinntu voru gjarnan fátækir einstæðingar. Þar segir enn fremur að ljóðið sýni samúð skáldsins með olnbogabörnum og einstæðingum.
Í kvæðinu má finna vissa samúð með lítilmagnanum og eru þar dregnar upp fallegar og eftirminnilegar myndir, á borð við „fáir njóta eldanna/ sem fyrstir kveikja þá“ og „sumir skrifa í öskuna/ öll sín bestu ljóð“ sem lýsa svo vel slæmri stöðu konunnar og ósýnileika hennar. Sjónarhornið er hins vegar manns sem stendur skör hærra en fátæka konan og berar því ljóðið þann afar skýra stéttamun sem þarna er fyrir hendi. Ljóðmælandi kann að vera fullur samúðar en hann er þó mun uppteknari af þeirri líðan sinni , sem konan vekur hjá honum, heldur en lífskjörum hennar. Fjarlægðin sem skilur að ljóðmælandann og konuna sem hann fylgist með skín í gegn, eða eins og áður hefur verið bent á heyrir hann í raun „yfirstétt til og horfir í nokkrum fjarska á alþýðu“
Kvæði skáldsins frá Fagraskógi sver sig mjög í anda nýrómantíkur, líkt og flest kvæði skáldsins. Áherslan er á einstaklingshyggju; innra líf ljóðmælanda og tilfinningar hans. Konan í kvæðinu er ákveðið viðfang; hún er ástæða þess að hann kemst úr jafnvægi og finnur til þessarar vanlíðunar. Það má skynja hjá honum samúð en það er öllu dýpra á samkenndinni.
Kvæðið Konan sem kyndir ofninn minn var ort fyrir rétt tæpri öld en er engu að síður býsna lýsandi fyrir stemninguna í okkar nútímasamfélagi. Einstaklingshyggjan er allsráðandi; einstaklingurinn er í fyrirrúmi og tilfinningar og líðan hans flæða flúraðar um bæði net- og raunheima. Það er sannarlega góð breyting frá því sem var, þegar flest var þagað í hel, en það er til lítils ef fólk lætur einungis duga að læka, deila og dreifa hjörtum. Það sýnir mögulega samúð en ristir sjaldnast dýpra en svo og er jafnvel til marks um sýndarmennsku. Jafnan fer líka betur á nýrómantík í ljóðum.
Ljóst er að það horfi mjög til vandræða ef marka má nýjustu PISA-kannanir en þær sýna að íslensk börn eru „undir meðaltali OECD-ríkjanna í mældri forvitni, samkennd og samvinnu“. Þetta er mikið áhyggjuefni. Það er þó auðvitað ekki við börnin að sakast heldur samfélagsgerðina sem stendur vart undir nafni. Það hriktir í stoðum hennar. Það þarf eitthvað mikið að gerast til að snúa þessari afleitu þróun við en svarið er tiltölulega einfalt: Sósíalismi – en í honum felst velferðarsamfélag fyrir okkur öll. Nema auðvitað að við viljum búa í einhverju félagi einstaklinga og sérhagsmunaafla með aukinni stéttaskiptingu, kvíða og einmanaleika, þar sem einungis „þau hæfustu“ lifa af.
Konan sem kyndir ofninn minn
Ég finn það gegnum svefninn,
að einhver læðist inn
með eldhúslampann sinn,
og veit, að það er konan,
sem kyndir ofninn minn,
sem út með ösku fer
og eld að spónum ber
og yljar upp hjá mér,
læðist út úr stofunni
og lokar á eftir sér.
Ég veit að hún á sorgir,
en segir aldrei neitt,
þó sé hún dauða þreytt,
hendur hennar sótugar
og hárið illa greitt.
Hún fer að engu óð
er öllum mönnum góð
og vinnur verk sín hljóð –
Sumir skrifa í öskuna
öll sín bestu ljóð.
Ég veit að þessi kona
er vinafá og snauð
af veraldlegum auð,
að launin, sem hún fær,
eru last og daglegt brauð.
En oftast er það sá,
sem allir kvelja og smá,
sem mesta mildi á. –
Fáir njóta eldanna,
sem fyrstir kveikja þá.
Myndin er í boði gervigreindar

Leave a comment