Öll skáld
hljóta á einhverjum tímapunkti
að yrkja ljóð
um útlandið.
Brjóta af sér hlekki
þjóðrembunnar
reyna að vera svolítið
sigld.
Þó ekki nema
vikutíma, eða svo
heimsborgaraleg!
Þá ríður á
að opna ekki kortið í símanum
út á miðri götu
ekki einu sinni
í pissuhorni við hliðina
á vinsælum pizzastað.
Þá lítur þú nákvæmlega eins út og túristarnir
sem þú þreytist ekki á að agnúast út í
heima á Íslandi.
Og þó að það sé kalt
á berlínskum götum
og hjólreiðafólkið frekt
á plássið
þá nýtur þú göngunnar
því þú ert jú í Berlín
og veggjakrotið er á þýsku.
Þú ferð samt inn á íslenska veðurvefinn:
Hvernig ætli viðri heima?
Er ég að missa af þurrum vindsveipnum
sem smýgur ekki inn að beini
eins og sá þýski?
Ég sýg upp í nefið
og nýt þess að vera í Berlín.

Leave a comment