Á röngunni

Það er búin að vera nokkur umræða, þó mestmegnis upphrópanir, um orðið vók (e. woke). Það er nú trúlega að bera í bakkafullan lækinn að hafa fleiri orð um það fyrirbæri enda liggur orðskýring fyrir, þó svo að (mis)skilningurinn á orðinu sé æði misjafn. Mig langar engu að síður að fjalla aðeins um það viðhorf til orðsins, og þeirrar breytni sem því fylgir, sem sjá má og heyra allvíða.  

Þetta reynist vera gömul saga og ný. Orð og hugtök eru skrumskæld og leitast er við að umturna merkingu þeirra til að gera þau ónothæf. Þau eru jafnvel notuð sem hnjóðsyrði, orð eins og vók og femínismi og setningar eins og „góða fólkið“ sem eru jafnan sagðar með fyrirlitningu.

Kerlingin (annað orð sem hefur verið farið illa með) þessi sem hér hamrar á lyklaborðið hlýtur að spyrja sig hvernig á þessu standi; hvers vegna hafa þessi orð verið gerð tortryggileg, verið snúið á rönguna, og hvert má rekja þennan útúrsnúning? Hvert er „vonda fólkið“?

Það má vera ljóst að orð sem þessi koma illa við sumt fólk og það þarf ekki að grúska lengi til að komast að raun um að þessi sum eru fyrst og fremst þau sem eiga auðinn og fara með valdið. Þau vilja ríghalda í óbreytt ástand – og auðvitað völd sín.

Tungumálið er valdatæki og orð hafa áhrif. Því þykir þarft að hemja alla orðræðu sem er vís með að vekja fólk til vitundar um hvers kyns misrétti og þörfina á breyttu og bættu samfélagi. Þá gæti nefnilega farið að hrikta í valdastoðunum. Það er þó erfitt að ætla að afneita misréttinu í samfélaginu, því það blasir við, og því er besta leiðin til varnar að ræna orðin merkingu sinni og láta sem einhverjar annarlegar og öfugsnúnar hvatir búi þeim að baki.

Leave a comment