Ég horfði á kvennafótboltann í gær, mánudaginn 7. júlí, og fannst heldur þreytandi að vera nauðbeygð að fjalla um hann nær eingöngu í karlkyni. Þarna tókust á Spánverjar og Belgar en öll þjóðarheiti eru í karlkyni, a.m.k. sem ég man eftir í fljótu bragði. Síðan hrúgast upp karlkynsorðin: Liðsmenn, markmaður, þjálfari, dómari o.s.frv. Það var því lítið kvenlegt við spjall mitt um leikinn og oft vafðist mér tunga um tönn því mér fannst þetta svo ankannalegt:
Vá, hvað Spánverjar eru öflugir. Þeir eru nánast alltaf í sókn! Þá eru þeir svo flinkir að senda boltann á milli sín. Þeim fipast nær aldrei. Belgar komast varla úr varnarstellingunum og aumingja markmaðurinn þeytist um markið, lafmóður og sveittur. Íslenski þjálfari Belga er eðlilega ekki mjög ánægður en það er undarlegt að þjálfari Spánverja skuli ekki vera bæði glaður og kátur. Hann setur bara í brýnnar! En flottur leikur hjá ömmm… stelpunum!
Myndin er fengin af RÚV en þar lítur frétt um leikinn mun betur út þar sem jafnan er vísað til nafna kvennanna og talað um liðið sem er hvorugkynsorð.

Leave a comment