Raddir af jaðrinum

Nína Björk Árnadóttir (1941-2000) var afar merkileg skáldkona. Hún skrifaði ljóð, leikrit og sögur og kom strax með fyrsta verki sínu, 24 ára gömul, eins og ferskur vindsveipur inn á ritvöllinn. Hún þróaði síðan með sér magnaða og ógleymanlega texta sem ramba á mörkum ljóðs, örsögu og einræðu í leikverki og gefa enn fremur einstæða innsýn í hugarheim sem flestum er jafnan lokaður. Þessir textar setja þessa eftirminnilegu skáldkonu á stall með okkar langbestu skáldum. Hér á eftir verður leitast við að rekja þessa þróun í ljóðum Nínu Bjarkar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar en þá sendir skáldkonan frá sér fimm ljóðabækur.

Nýstárlegur tónn

Fyrsta ljóðabók Nínu Bjarkar, Ung ljóð, kom út árið 1965. Hún vakti nokkra athygli enda býsna opinská og berorð um heitar tilfinningar og frygð. Skáldkonan notar talsvert stílbrögðin endurtekningar, andstæður og tákn til að tjá miklar tilfinningasveiflur og minnir þessi nálgun nokkuð á nýrómantísku ljóðin sem voru í tísku á fyrstu áratugum síðustu aldar. Hins vegar er öllu raunsæislegra og mikið nýmæli að þarna fer ung kona ófeimnum orðum um líkamlegar kenndir og kynlíf. Líkt og Silja Aðalsteinsdóttir (2016) bendir á lýsir Nína Björk flóknum samskiptum kynjanna með líkamlegri hætti en áður hafði sést í ljóðum kvenskálda og beinist ást hennar, og jafnvel girnd, að báðum kynjum.“ (bls. 160) Um mögulegt lesbískt næmi og hómóerótík í ljóðum Nínu Bjarkar má lesa hér.

Silja (2016) bendir einnig á að ljóð Nínu Bjarkar séu mögulegt andsvar konu við skáldskap Dags Sigurðarsonar (1937-1994) sem vakti mikla hneykslan fólks vegna berorðra lýsinga á kynlífi og nautnum. (bls. 160) Hvað sem því líður þá slær Nína Björk nýstárlegan tón í ljóðum sínum  með hispurslausum lýsingum sínum, eins og sjá má t.d. í þriðja erindi ljóðsins „Núna“:

Núna – III

Núna hvísla hendur þínar

leyndarmálum að líkama mínum.

Núna lít ég augu þín

uppfull af tárum

tárum,

sem frjósa í fæðingu.

Núna ferðu skjálfandi frá mér

og löngun þín seiðir

leikandi skaut mitt.

(5)

Þó svo að ástin sé mjög klassískt yrkisefni og sömuleiðis samskipti kynjanna þá er  jafnan ort undir rós þegar kemur að lýsingum á samlífi fólks í ljóðum íslenskra skáldkvenna. Nína Björk vílar hins vegar ekki fyrir sér að vera býsna djarfmælt líkt og blasir við undir lok erindisins.

Næsta ljóðabók skáldkonunnar, Undarlegt er að spyrja mennina, kom út árið 1968Í þessari bók má enn finna þær sterku tilfinningar sem einkenna gjarnan ljóð skáldkonunnar. Efnistökin eru þó heldur settlegri, ef svo má að orði komast. Þegar hér er komið sögu er Nína Björk orðin móðir sem kann að hafa sitt að segja og má meðal annars finna í bókinni falleg ljóð til sonar hennar. Enn má þó víða merkja þessa ólgu tilfinninga sem er jafnan undirliggjandi í mörgum ljóðum hennar.

Geðrænn vandi

Þriðja ljóðabókin er Börnin í garðinum sem kom út 1971 og þar má finna fyrstu ljóðin sem fjalla mjög umbúðalaust um geðrænan vanda. Ljóð þessi nefnast „Ofsókn I“ og „Ofsókn II“. Fyrra ljóðið hefst með afar áhrifamiklu myndmáli: „Illum grun hefur verið fleygt að fótum mér/ eins og fuglshræi.“ Grunurinn reynist snúast um að sá sem áður hafði lofað ljóðmælanda draumkenndum hamingjudögum sé með í „þessum dansi/ sem mig svo skelfir.“ Ljóðmælandi harmar síðan að hafa ekki vitað hvað yrði og mögulega að ekki sé allt sem sýnist. Ljóðið endar á orðunum: „að þú sért . . .“ (22) sem lesanda er látið eftir að botna.

Í seinna ljóðinu skýrist betur það sem bíður ljóðmælanda eða a.m.k. það sem hann telur að bíði hans: 

Ofsókn II.

Ég veit að þeir koma    þeir sem trúa á blóð og vatn    veit að þeir koma og  kvelja mig niður á kaldan bekkinn    kannski á hvítum sloppum    kannski með marga hnappa    kannski með tóm augun    og þeir trúa á blóð og vatn    þeir segja þeir segja að þeir skilji    skilji mig    þeir skilji að ég skuli reyrast og kveljast á kaldan bekkinn    Ég veit að þeir koma    veit veit að þeir koma. (23)

Seinna ljóðið er eins konar vitundarflæði (stream of consciousness). Það er sett upp sem prósi eða prósaljóð og gera talmálslegt tungutakið og endurtekningar það raunsæislegra en ella. Þá er hvergi hirt um greinarmerki. Þetta hæfir vel ljóði Nínu Bjarkar því sýnt er inn í huga manneskju og þar eiga reglur um uppsetningu illa heima og enn síðar þegar hugurinn glímir við andleg veikindi. Manneskjan óttast að hún verði sótt af einhverjum heilbrigðisstarfsmönnum til að færa hana á „kaldan bekkinn“ og þar verði hún reyrð niður og kvalin. Mögulega kann hér að vera átt við raflostmeðferð sem hefur verið notuð lengi til lækninga, og er notuð talsvert enn.

Persónuleg reynsla

Vitað er að Nína Björk átti lengi við alkóhólisma og þunglyndi að stríða. Það kemur t.d. fram í frásögn yngsta sonar hennar, Ragnars Ísleifs Bragasonar, að hún hafi farið oft inn á geðdeild, og miðsonurinn, Valgarður Bragason, hefur sagt frá því þegar hann kom að móður sinni eftir að hún framdi sjálfsvíg vorið 2000. Af þessu má ráða að Nína Björk sé sjálf ljóðmælandinn í fyrrnefndum ljóðum. Það er mjög líklegt en ekki er hægt að slá því föstu því hún yrkir einnig nokkuð í orðastað annarra. Hvað sem því líður má vera ljóst að hún hefur fengið mikilvæga innsýn í þennan hugarheim og þekkir þar vel til. Það leynir sér ekki í ljóðum hennar.

Grunnt á kímninni

Þrátt fyrir að Nína Björk fjalli oft um sársaukafulla hluti er jafnan grunnt á kímninni og skáldkonan getur verið afskaplega hnyttin. Þetta er jafnframt þarft stílbragð þegar efnið er orðið mjög þungt og erfitt því þá er hugarléttirinn (comic relief) nauðsynlegur til að þola við. Þessa nálgun má sjá í ljóðinu „Ég og stóra húsið mitt“ sem er að finna í kaflanum „Borgaralegar athugasemdir“ (bls. 67-71). Þar er stórskemmtileg einræða leigusala sem lætur gamminn geysa við leigutakann sem aldrei fær orðið. Leigusalinn er málaður upp sem afar skoplegur kapítalisti en orð hans gefa einnig nokkuð góða mynd af aðstæðum hins þögla leigutaka.

Leigutakinn er greinilega kona með ungt barn sem þarf að þola hæðni og fyrirlitningu leigusalans. Hann vill meina barninu aðgang að garðinum, sakar konuna, og trúlega mann hennar, um að vera að drekka og dansa um miðjar nætur, og skammast yfir umgengni hennar í þvottahúsinu. Loks hótar hann að skera af henni lappirnar ef hún vogar sér að teygja þær yfir í garðinn hans þegar hún liggur í sólbaði. Hann þiggur þó hjá henni tíu dropa.

Stíllinn hér er í svipuðum anda og prósaljóðið sem fjallað var um hér að ofan og einnig minnir þessi nálgun nokkuð á skáldsöguna Snöruna eftir Jakobínu Sigurðardóttur (1918-1994) sem kom út þremur árum fyrr en sú saga er byggð upp sem samtal þar sem einungis rödd annarrar manneskjunnar kemur fram. Nína Björk fer vel með þessa nálgun í ljóði sínu og sem fyrr er málfarið talmálslegt og sannfærandi:

Eruð þið að drekka á kvöldin eða hvað    já fólk sefur ekki fyrir þessu    langaði ykkur að dansa    ég hef aldrei heyrt annað eins    dansa og syngja um hánótt     lestu samninginn    held þér væri nær að lesa hann heldur en eitthvað rugl sem er meira og minna pólitískt    heldurðu ég sé eitthvað vitlaus    svei mér ég gæti best trúað þið væruð bláedrú að þessu    Það er ekki á ykkur logið    hef ég sungið?    Já ég söng í nóvember    í mínu eigin húsi    hvað ertu að tala um það (69)

Maðurinn þrífst illa

Árið 1975 sendi Nína Björk frá sér ljóðabókina Fyrir börn og fullorðna. Hún geymir einkum trúarleg ljóð en Nína Björk var mjög trúuð og aðhylltist hún kaþólska trú. Þarna gætir þó þessar ólgu sem gjarnan má sjá í ljóðum hennar. Árið 1977 kemur síðan út ljóðabókin Mín vegna og þín. Sú bók er tvískipt og ber fyrri hluti bókar yfirskriftina Söng í fjallinu og sá síðari Á vistinni.  Ljóð samnefnt kaflaheitinu, „Á vistinni“, fjallar um mann sem átti gott líf en það breyttist og nú bíður hann fullur angistar eftir að „að þeir í hvítu sloppunum/ segi honum/ hvort heldur hann er/ ekki boðlegur heiminum/ eða/ heimurinn ekki honum“ (46-47)

Í ljóðinu er dregin upp afar áhrifarík mynd af manneskju sem þrífst illa í samfélaginu. Ljóðið er mjög ríkt af myndmáli sem hæfir vel efninu og lokaerindið er skemmtilega ögrandi; óvíst er hvort það sé maðurinn eða heimurinn sem er vandamálið. Maðurinn  rekst illa í samfélaginu en ástæðan fyrir því þarf ekki að liggja hjá honum því mögulega er samfélagsstakkurinn full þröngur, býður aðeins heim einsleitni og hæfir því ekki fólki sem á einhvern hátt sker sig úr.  

Fóstureyðing

Í þessum seinni hluta bókar eru mun fleiri ljóð en í þeim fyrri og geyma nokkur þeirra þessa sérstöku nálgun á efni og form sem Nína Björk hefur svo gott vald á. Þar er veitt innsýn í heim fólks sem á við geðrænan vanda að stríða en einnig er fjallað um önnur tabú sem á helst ekkert að ræða um. Þar er einna áhrifaríkast prósaljóðið „Með vísnasöng“ sem greinir frá fóstureyðingu. Ljóðmælandi er ófrísk kona sem situr nakin með einungis hvítt lak utan um sig „sem hafði verið þeytt í hana“ fyrir framan lækni. Hún er nauðbeygð til að fara í fóstureyðingu þar sem hún hefur ekki efni á að hugsa um barn. Læknirinn talar niður til hennar, er kaldur og fráhindrandi. Hann segir hana með vottorð frá geðlækni og trúlega er það þess vegna sem hann ræðst í aðgerðina því lög um þungunarrof voru þrengri í þá daga. Síðan eru dregnar upp mjög sterkar andstæður þar sem konan sönglar fallegt kvæði Einars úr Heydölum á meðan læknirinn vísar henni á bekkinn til að framkvæma aðgerðina:

[…] með vísnasöng    sönglaði hún    augnablik brá fyrir ótta í augum hans    þetta tekur fljótt af sagði hann svo    gjöra svo vel    leggjast upp á bekkinn    neðar neðar neðar    svona svona svona    já slappa af    (hann reif og sleit og skar)    slappa af    (hann reif og sleit og skar)    slappa af   (reif og sleit og)    slappa alveg af  (54)

Talmálsstíllinn og endurtekningarnar gera að verkum, nú sem fyrr, að lýsingin er afar sannfærandi. Þá er hún mjög líkamleg og jaðrar við að vera gróf. Það er mjög auðvelt að finna til með ljóðmælanda, a.m.k. eiga trúlega flestar konur og kvár hægt með að samsama sig því að liggja útglenntar á bekk á læknastofu og fá inn í sig kalt málmtæki, óháð því hvað standi til.  

Brautryðjandi

Lýsing sem þessi hafði ekki áður ratað í ljóð eftir konu. Ásta Sigurðardóttir hneykslaði margan með frásögn sinni af fóstureyðingu, og fleiri tabúum, í einni af smásögum sínum um miðja öldina en hún gekk þó ekki jafn langt og Nína Björk gerir. Nóg þótti nú samt. Margt hefur auðvitað breyst á þessum tæpum þremur áratugum frá því saga Ástu kom út; módernisminn hafði styrkt sig í sessi, ýmsar tilraunir voru í gangi, bæði í efni og stíl, og Rauðsokkurnar voru mættar til leiks. Nína Björk hefur sjálfsagt orðið fyrir áhrifum af öllu þessu en hún er engu að síður samkvæm sjálfri sér og hefur allt frá upphafi verið mjög beitt og ögrandi í ljóðum sínum. Fyrrnefnt ljóð er aðeins eðlilegt framhald þar á.

Nína Björk hefur ekki fengið mikla athygli nú í seinni tíð. Það er þó vert að minnast hennar þar sem hún er að mörgu leyti brautryðjandi. Mörg skáld hafa ort um ástina, lífið og dauðann en Nína Björk var óhrædd við að ganga heldur lengra, taka efnið nýstárlegri tökum og fjalla um ýmis erfið málefni á opinskáan hátt, á borð við geðveiki, alkóhólisma og ofbeldi. Á þessum tíma var ekki haft hátt um mál sem þessi en það var engu að síður þarft og er vissulega enn því ennþá er grunnt á fordómunum. Þessi viðkvæmu mál mega ekki liggja í láginni, ekki frekar en þessi magnaða og eftirminnilega skáldkona.

Grein þessi er hluti verkefnis sem Hagþenkir styrkir.

Leave a comment