Ónefnið skvísubók – mánudagstuð á þriðjudegi

Ónefnið skvísubók minnir óneitanlega á annað ónefni, eða kerlingabók, sem var notað nokkuð áður fyrr um bók eftir konu sem þótti heldur ómerkileg. Gömul og þekkt er skiptingin í stelpu- og strákabækur, sem er nógu afleit og útilokandi, en þegar skáldsögur eru ætlaðar fullorðnum þá virðast bækur eftir karlmenn vera einfaldlega það, bókmenntir sem henta öllum kynjum, en bækur eftir konur eru flokkaðar. Það gat nú verið!

Ekki veit ég til þess að til sé flokkunin gæjabækur eða eitthvað í þá veru. Ónefnið skvísubók er þýðing á enska orðinu chic lit og sá ég haft eftir einhverri skemmtilegri konu í útlöndum orðið dick lit sem mögulega sambærilegt orð fyrir gæjabækur. Orðið skvísubók hefur þó fest sig rækilega í sessi hér á landi; það er notað allvíða og hefur ratað í íslenska orðabók en þar má sjá hvernig skal beygja það. Skýring á orðinu fylgir ekki en það má þó vera ljóst að þessi tegund bókmennta telst ekki vera „alvöru bókmenntir” heldur léttmeti, í anda formúlu- og ástarsagna. Dagbók Bridget Jones eftir Helen Fielding þykir afar gott dæmi um skvísubókmenntir og jafnvel sú fyrsta þessarar tegundar. 

Dagbók Bridget Jones sló rækilega í gegn á sínum tíma. Mér er mjög minnisstætt þegar ég færði vinkonu minni í útlöndum þessa bók, nýútkomna, og kærasti hennar hvarf með hana ásamt Apollo lakkrís inn í herbergi og sást ekki meira það kvöldið. Stimpillinn skvísubók gefur þó nokkuð skýrt til kynna að þetta séu ekki bækur sem henta karlmönnum. Í Cambridge Dictionary er chic lit einfaldlega útskýrt sem „stories written by women, about women, for women to read.” Engu að síður þykir eðlilegasti hlutur að konur, og kvár, lesi formúlukenndar bækur skrifaðar af karlmönnum um karlmenn? 

Ljóst er að ónefnið skvísubók er notað í niðrandi merkingu um ákveðna tegund bókmennta, líkt og kerlingabækurnar forðum, þrátt fyrir að þessar sögur séu auðvitað jafn misjafnar og þær eru margar. Og hver ákveður h

Leave a comment