Dæmi um kynhlutlaust mál
Hér verður leitast við að tína til og halda til haga greinum og fréttum um kynhlutlaust mál sem ratað hafa í fjölmiðla og víðar. Þetta verður þó aldrei tæmandi listi enda efnið mismunandi aðgengilegt og sumt kann að hafa farið framhjá mér. Vonandi gefur þetta yfirlit þó nokkra innsýn í umræðuna.












Fræðingar skrifa
Pistlar Eiríks Rögnvaldssonar
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands hefur skrifað fjölda pistla um kynhlutlaust mál og yrði full langt mál að tíunda þá alla hér. Nær er að vísa á síður hans Málspjall – pistlar og síðu hans hjá H.Í. og enn fremur bókina Alls konar íslenska. Hér á eftir verður þó vísað í stöku skrif þar sem Eiríkur er beinlínis að svara því sem er í umræðunni hverju sinni. Hér má nálgast yfirlit yfir pistla Eiríks sem fjalla um kynhlutlaust og kynsegin mál:

Ekki líklegt að kynhlutlaust mál verði „ráðandi“
Ónefndur höfundur skrifar (frétt) 26. mars 2025
Titill fréttar er sóttur í svar Eiríks Rögnvaldssonar á Vísindavefnum við spurningunni um hver framtíðarstaða íslenskunnar verði ef kynhlutlaust mál verði ráðandi. Titillinn er þó nokkuð villandi því hann er dreginn úr ákveðnu samhengi. Á Vísindavefnum hljóðar hann svo: „Það er því ekki líklegt að kynhlutlaust mál verði „ráðandi“ í íslensku málsamfélagi í náinni framtíð, ef átt er við að kynjahalla tungumálsins verði útrýmt með öllu.” Eiríkur segir einnig vel hugsanlegt að smám saman muni draga úr kynjahalla vegna meðvitaðra aðgerða í þá átt en tæplega verði um einhverjar kollsteypur í þessum efnum. Loks bendir hann á að það sé engin ástæða til að ætla að breytingar í átt til kynhlutleysis hafi stórvægileg áhrif; málið haldi áfram að vera íslenska. Fréttina má lesa hér.
Hættur kynhlutleysis
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, skrifar 13. júní 2024
Eiríkur er fyrst og fremst að svara greinum Höskuldar Þráinssonar (sjá hér fyrir neðan). Eiríkur bendir á að það sé jafnmikil tvíræðni í að nota orðalagið fjögur slösuðust og fjórir slösuðust. Þá bendir hann á að margt hafi breyst í málinu í tímans rás án þess að fundin hafi verið þörf á að ,,þýða” texta á samtímamál þess vegna. Eiríkur segir einnig að það sé ekkert sem segi að tilbrigði í málinu valdi börnum einhverjum vandkvæðum og í kennslu íslensku sem annars máls sé jafnan gengið út frá því sem algengast er. Eiríkur leggur þó áherslu á að það sé þarft að sýna málfari annarra umburðarlyndi en niðurstaðan sé sú að breytingar á málinu í átt til hlutleysis séu hættulausar. Lesa má greinina hér.
Nýlenska
Eiríkur Rögnvaldsson skrifar, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands 16. maí 2021
Eiríkur vísar í umræðuna um orð og kyn þar sem tilraunir til að draga úr karllægni tungumálsins hafa verið kallaðar „gelding tungumálsins“, „afkynjun íslenskunnar“, „málvönun“ og „nýlenska.” Hann vísar þessu á bug og tínir til mörg dæmi um fyrrnefndar breytingar og sýnir fram á að þær eigi fyllilega rétt á sér, í ljósi málfræðinnar og sögunnar. Því geti ekki verið um neina afkynjun eða svonefnda nýlensku að ræða. Eiríkur bendir einnig á að auðvitað sé fólki frjálst að nota hefðbundnari orð. Greinina má lesa hér.
Fleiri raddir

Bókaútgáfa, íslenskukennsla, þýðingar og máltilfinning
Höskuldur Þráinsson, fyrrverandi prófessor í íslensku nútímamáli, skrifar, 10. júní 2024
Höskuldur segir að í raun séum við öll með íhaldssama máltilfinningu og þessi nýja málnotkun snúist bara um pólitík en ekki máltilfinningu og málfræði. Hann varar við þessari tilraunastarfsemi og tekur dæmi af ruglingnum sem myndi skapast ef sum notuðu orðalagið ,,Fjórir slösuðust…” þar sem önnur skrifa ,,Fjögur slösuðust…” og bendir á tvíræðnina sem felst í að nota hvorugkynið. Og ef það færi svo að hvorugkyn fleirtala taki við kynhlutlausishlutverki karlkynsins gæti það verið ruglandi fyrir unglinga í skólum og innflytjendur að lesa eldri texta. Lesa má greinina hér.
Kynhlutlaust mál, máltilfinning og forsetaframboð
Höskuldur Þráinsson, fyrrverandi prófessor í íslensku nútímamáli, skrifar, 19. maí 2024
Höskuldur bendir á að kynhlutleysi málfræðilega karlkynsins sé hluti af íslenska málkerfinu og hafi alltaf verið. Það sé því ekki hægt að nota hvorugkyn í stað karlkyns nema þegar rætt er um einstaklings eða einhvern tiltekinn, blandaðan hóp. Þá segir hann kynhlutleysið geta haft ruglandi eða misvísandi áhrif á máltilfinningu barna sem eru að tileinka sér málið. Lesa má greinina hér.

Verkfæri tungumálsins og ólíkir reynsluheimar
Sigríður Mjöll Björnsdóttir, doktor í almennum málvísindum sem starfar við rannsóknir og kennslu við Konstanz-háskóla í Þýskalandi. skrifar, 11. júlí 2022
Sigíður afbyggjir algengur mýtur um kynhlutlausa málnotkun sem standa uppbyggilegri umræðu fyrir þrifum. Hún bendir t.d. á að tungumál séu stútfull af „kerfisvillum“ og það sé einfaldlega tölfræðileg tilviljun að karlkyn hafi verið notað í almennum og kynhlutlausum skilningi í gegnum tíðina í íslensku. Þá bendir Sigríður á að því hafi verið haldið fram að ekki sé hægt að taka upp nýtt fornafn þar sem fornöfn tilheyri svokölluðum lokuðum orðflokki. Það sé hins vegar í raun ekkert sem getur fyrirfram ákveðið hvað sé opinn og hvað sé lokaður orðflokkur. Enn fremur bendir hún á hvernig málnotkunin afhjúpar alls kyns félagslegar skilyrðingar og fordóma. T.d. sé hún kölluð fröken og vinan á meðan kollegar hennar eru skreyttir alls kyns fjöðrum. Sigríður fagnar kynhlutlausri málnotkun sem endurspeglar það hvernig verkfæri tungumálsins geta verið nýtt til þess að tjá sífellt nýja og fjölbreytilega reynslu. Lesa má greinina hér.

Hvernig skal tala á RÚV
Geirfuglar og þróun tungumálsins

Geirfuglar og flámæli
Pétur Már Sigurjónsson, kennari og doktorsnemi í málvísindum, skrifar, 6. júní 2024
Pétur tekur undir með Þór um að tungumál eigi að fá að þróast af sjálfu sér en bendir á að frekar sé verið að breyta íslenskunni með handafli þegar verið er að finna að fullkomlega góðri og nothæfri íslensku. Slíkt hafi áður verið gert þegar fólk í valdastöðu leitaðist við að útrýma flámæli á sínum tíma. Pétur hvetur til þess að við gleðjumst yfir hvers kyns notkun á tungumálinu. Lesa má greinina hér.
Geirfuglar Sigríðar Hagalín
Þór Saari, félagi í Sósíalistaflokknum, skrifar, 5. júní 2024
Þór vill að íslenskan fái að þróast af sjálfu sér, hægt og yfir langan tíma. Þá segir Þór þessar breytingar á tungunni vera að vissu leyti trúarbrögð sem byggi á einhvers konar pólitískri hugsun hægri manna um frelsi. Lesa má greinina hér.
Um flug geirfuglsins
Sigríður Hagalín, atvinnumaður í íslenskri tungu, skrifar, 4. júní 2024
Sigríður segir að á Ríkisútvarpinu sé fólki frjálst að nota það orðalag sem því þykir eðlilegt, svo lengi sem það telst ekki beinlínis rangt. Hún segist sjálf vera með íhaldssama máltilfinningu en hún vilji engu að síður leyfa íslenskunni að fljúga. Eina hættan sem steðji að íslenskunni sé enskan. Lesa má greinina hér.
Kæra Kristjáns
„Lýtalaus íslenska“ er ekki til
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði og málfarslegur aðgerðasinni, skrifar, 1. júlí 2024
Eiríkur rifjar upp kæru Kristjáns Hreinssonar (sjá greinina: Að gefnu tilefni og fréttina: Kærir RÚV til ráðuneytis.. hér fyrir neðan) en þar segir Kristján að Ríkisútvarpið fremji lögbrot. Í lögum komi fram að tal og texti eigi að vera á lýtalausri íslensku en Eiríkur bendir á, og færir rök fyrir því, að lýtalaus íslenska sé ekki til, enda sé þetta orðalag ekki notað í nýjum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðherra við RÚV heldur segir þar: „Áhersla skal lögð á vandað mál í öllum miðlum […].“ Þá bendir Eiríkur á að ef útiloka eigi annað fólk en það sem talar „lýtalausa íslensku“ (og er varla til) stuðli það vitaskuld ekki að „lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni“ í samfélaginu – sem er þá á skjön við meginmarkmið RÚV skv. lögunum. Þá sé það grundvallaratriði að málfar í Ríkisútvarpinu endurspegli fjölbreytileika samfélagsins á hverjum tíma. Umburðarlyndi gagnvart tilbrigðum og fjölbreytileika í máli er því forsenda þess að RÚV geti sinnt skyldum sínum við samfélagið. Eiríkur klykkir út með því að kæra Kristjáns sé út í hött og hann láti lesendum það eftir að velta fyrir sér hvers vegna kært sé út af kynhlutlausu máli en ekki notkun enskra orða í íslensku samhengi þar sem völ er á íslenskum orðum. Greinina má lesa hér.
Að gefnu tilefni
Kristján Hreinsson, maður, skrifar, 1. júlí 2024
Kristján svarar hér Gauta Kristmannssyni, prófessor í þýðingafræði (sjá greinina Af málathöfnum, hér fyrir neðan). Kristján er óhress með að Gauti sé að ýja að því að hann sé með máli sínu að ráðast að tilteknum hópum fremur en að ráðast gegn því sem hann kýs að kalla hvorugkynssýki. Kristján segir Lög um Ríkisútvarpið vera skýr en þar komi fram að stofnuninni beri að skila lýtalausri íslensku til landsmanna. Þá telji hann það vera mállýti að reyna að láta hvorugkyn stýra, þar sem málvenja segir að karlkyn sé ráðandi. Kristján segir að ráðist sé að grunnstoðum tungumálsins og að kæru sinni vilji hann bjarga íslenskunni. Greinina má lesa hér.
Af málathöfnum
Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði, skrifar, 28. júní 2024
Gauti segist gáttaður á ýmsu sem fram hefur komið í umræðunni um kynhlutlaust mál og þá einkum kæru Kristjáns Hreinssonar (sjá fréttina: Kærir RÚV til ráðuneytis... hér fyrir neðan). Gauti veltir því enn fremur fyrir sér hver viðurlögin eigi að vera ef kæran er tekin til greina? Á menntamálaráðherra að reka fólk úr starfi sem segir „verið öll velkomin“ frekar en „verið allir velkomnir“? Hann spyr hvernig fari þá með þau sem eru „þágufallssjúk“, sletta, nota nýju þolmyndina eða eru ekki með íslensku að móðurmáli; eigi þá ekkert að fá að heyrast í þeim? Gauti spyr að lokum hvort það geti verið að ofsinn í þessum umræðum felist í því til hverra tillit er tekið frekar en ógurleg ást á íslenskri tungu [mögulega kann Gauti að vera að hugsa um þessa grein Kristjáns]. Lesa má greinina hér.

Kærir RÚV til ráðuneytis vegna notkunar á kynhlutlausu máli
Lovísa Arnardóttir skrifar (frétt), 26. júní 2024
Kristján Hreinsson skáld hefur lagt fram kæru til Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, vegna notkunar íslenskrar tungu hjá fjölmörgu starfsfólki Ríkisútvarpsins. Hann segir það einhliða ákvörðun starfsfólks RÚV að breyta íslenskri tungu með því, fyrst og fremst, að auka notkun hvorugkyns og telur hann þetta ganga gegn lagaákvæðum um að RÚV leggi rækt við íslenskuna og viðhafi lýtalaust málfar. Í lok fréttar bendir Lovísa á að það séu skiptar skoðanir um kynhlutlaust málfar og nefnir m.a. skrif Eiríks Rögnvaldssonar. Lesa má fréttina hér.
Mismunandi máltilfinning
Lilja fundar með RÚV um „nýlenskuna“
Lovísa Arnardóttir skrifar (frétt), 21. maí 2024
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir það algert gáleysi að breyta málfræði tungumálsins án þess að fara vel yfir það. Hún ætli að funda með RÚV um „nýlenskuna“ og notkun blaðamanna stofnunarinnar á henni. Sjálf segist hún ekki hrifin af þessari breytingu og hefur áhyggjur af því hvaða áhrif þetta muni hafa á máltöku barna og íslenskunám innflytjenda. Lilju Dögg finnst þó gott að það sé lífleg umræða um íslenskuna því það þýði að fólki finnst vænt um hana. Lesa má fréttina hér.
Málið á að endurspegla fólkið í landinu
Birta Björnsdóttir, yfirmaður erlendra frétta á fréttastofu RÚV, skrifar, 14. maí 2024
Birta segir það ekki gaman að sitja undir ásökunum Völu Hafstað. Hún bendir á að á fréttastofu RÚV vinni alls konar fólk með ólíkan bakgrunn, menntun, starfsreynslu og enn fremur ólíka máltilfinningu. Þar hafi engar reglur verið settar um útrýmingu á orðinu maður frekar en öðrum orðum. Birta segir að við eigum að tala og skrifa íslensku sem endurspegli litróf fólksins sem býr á landinu. Lesa má greinina hér.

Lilja hefur áhyggjur af „nýlenskunni” á RÚV
Jakob Bjarnar skrifar (frétt), 13. maí 2024
Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir ráðuneytið ekki hafa lagt neinar línur um notkun á kynhlutlausu máli; þetta sé sjálfsprottið hjá RÚV. Lilja telur mikilvægt að það sé skýrt og einfalt hvernig málfræðigrunnur okkar sé lagður upp því annars gæti það reynst erfitt fyrir t.d. fólk af erlendum uppruna að læra tungumálið. Hún segir Alþingi hafa verið að samþykkja aðgerðaráætlun fyrir tungumálið og það sé brýnt að farið sé eftir settum reglum. Lesa má fréttina hér.
Fjöldaúrsagnir kvenna úr mannkyninu
Jakob Bjarnar skrifar (frétt), 9. maí 2024
Jakob Bjarnar reifar skoðanir Völu Hafstað, sem gagnrýnir að verið sé að útrýma orðinu maður, og Eiríks Rögnvaldssonar sem komi jafnan kynhlutlausu máli til varnar (sjá grein Völu og svar Eiríks við henni hér fyrir neðan). Einnig vísar Jakob Bjarnar í umfjöllun Guðmundar Andra Thorssonar, rithöfundar, sem segir að sjálfum sé honum tamt að nota orðið maður og það sé vandkvæðum bundið að leggja það niður í almennri merkingu. Þá finnst honum umræðan hafa leitt af sér óþarfa skautun. Eiríkur Rögnvaldsson segir það útbreiddan misskilning í þessari umræðu að öll orð snúist um rótina mann og veit um engan sem sé mótfallinn orði eins og mannkyn. Þá hefur Jakob Bjarnar það eftir Margréti Elísabetu Ólafsdóttur, prófessor hjá Listaháskólanum, að það megi leysa þetta með því að nota orðið maður um allt mannkyn sama hvers kyns einstaklingurinn er og tekur Guðmundur Andri undir með henni.
Anna Sigríður Þráinsdóttir, Málfarsráðunautur RÚV, segir engar fyrirskipanir af hennar hálfu, né annarra, liggja fyrir um málnotkun starfsmanna RÚV. Það sé rangt hjá Völu Hafstað að ekki megi nota t.d. orðið maður. Hins vegar kjósi sumt starfsfólk RÚV að draga úr karllægni tungumálsins og að það sé í fullum rétti til þess. Anna Sigríður bendir á að málvitund fólks breytist hratt og yngri kynslóðir séu með aðra málkennd en þau sem eldri eru. Lesa má fréttina hér.
Eru menn í útrýmingarhættu?
Er ungum mönnum sama um sjófólk?
Kjartan Sveinn Guðmundsson, bitch sem vill jafna verkaskiptingu í heimilisrekstri, skrifar, 16. maí 2024
Kjartan Sveinn svarar Völu Hafstað og segir hana fara í óþarfa dúkkuleik með ímynduðum grunnskólakennurum og starfsfólki RÚV. Hann segir þann hóp sem vilji útrýma orðinu maður ekki til og spyr hvort það sé ekki eðlileg þróun í janfréttisparadís að nýjustu vendingar í tungumáli þess endurspegli jafnrétti kynjanna. Greinina má lesa hér.

Er maðurinn í útrýmingarhættu?
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslensku og málfarslegur aðgerðasinni, skrifar 10. maí 2024
Eíríkur svarar grein Völu Hafstað (sjá hér fyrir neðan) og bendir á að stóryrði, útúrsnúningar, uppnefni, rangfærslur, háðsglósur og uppspuni um ætlun fólks henti illa sem framlag til málefnalegrar umræðu. Hann segir að því miður komi þetta allt fyrir í grein Völu og nefnir fjölmörg dæmi þar um. Lesa má greinina hér.
Útrýming mannsins á RÚV
Vala Hafstað, leiðsögumaður og skáld, skrifar, 6. maí 2024
Vala segir að það sé verið að gera aðför að tungumálinu okkar með því að innleiða hina kynlausu nýlensku í nafni jafnréttisbaráttu. Hún sakar fréttamenn RÚV öðrum fremur um að vilija útrýma orðinu maður og reyna að sneiða hjá ýmsum karlkynsorðum sem henni fyndist eðlilegra að nota. Lesa má greinina hér.

Er maður kynhlutlaust orð?
Konur og menn
Orðræða mótar menningu – og menningin mótar okkur öll
Jóhanna Bárðardóttir, rafveitu- og rafvirki og formaður Félags fagkvenna, skrifar, 30. september 2025
Jóhanna fjallar um hvernig orðræðan endurspegli menninguna, ekki síst á vinnustaðnum, og að hún hafi margoft upplifað hvernig útilokandi orðræða læðist inn í daglegt tal. Hún segir að til að skapa inngildandi menningu þurfum við öll að taka ábyrgð á orðum okkar en ábyrgðin hvíli þó sérstaklega á þeim sem mynda meirihlutann en innan iðngreina séu það oftast karlar. Rannsóknir sýni að fjölbreytt teymi skili betri árangri og því sé þarft að öllum finnist þau tilheyra. Lesa má greinina hér.
Íþróttamaður ársins
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, skrifar, 7. janúar 2025
Eiríkur bendir á að stundum hafi titillinn Íþróttamaður ársins verið gagnrýndur á þeim forsendum að hann sé of karllægur. Hins vegar er það einnig svo að þótt orðið maður vísi oft til karla hefur það líka almenna merkingu og vísar til tegundarinnar sem við erum öll af, karlar, konur og kvár. Eiríkur segir það þó ekki breyta því að orðið hafi oft karllæga slagsíðu og nefnir sem dæmi að það sé sérkennilegt að kalla t.d. knattspyrnukonu íþróttamann. Eiríkur telur æskilegt að finna annað orð og bendir á að sum bæjarfélög útnefni íþróttamanneskju ársins, sem honum finnst þó ekki að öllu leyti heppilegt. Lesa má greinina hér.
Afkynjun Sigmundar Ernis og kynhlutlausa karlkynið
Sara Stef. Hildar skrifar, 8. júlí 2023
Sara segir menntuðum, hræddum, hvítum karlmönnum hafi borist liðsauki þar sem Sigmundur Ernir er. Hún bendir á að sívaxandi hópur telji sig heft af kröfunni um að „málfræðilega karlkynið sé í raun hið „kynhlutlausa“ kyn tungumálsins og sum myndu segja að þetta væri ein birtingarmynd kúgunar; nokkurs konar málfræðileg kúgun karlkynsins sem hafi lengi verið ráðandi á ólíkum sviðum mannlífsins. Lesa má greinina hér..
Hvers á kerling að gjalda?
Jóna Guðbjörg Torfadóttir skrifar, 7. apríl 2023
Jóna vill endurheimta orðið kerling og finnst eðlilegra að notuð séu andstæðupörin maður og kona annars vegar og karl og kerling hins vegar. Hún bendir á dæmi um slíka notkun í fornum heimildum en áréttar einnig að orðaval skipti alltaf máli. Ný og nútímalegri viðhorf og aukið jafnrétti í samfélaginu kalli á endurskoðaðan orðaforða. Það sé enda miklu nær að sameinast um að standa vörð um íslenskuna í ójöfnum slagi hennar við enskuna. Lesa má greinina hér.
Njörður biður menn um að hætta „að afskræma tungu okkar með bjánalegum tilburðum“
Ónefndur höfundur skrifar (frétt), 12. janúar 2023
Hér er vísað til greinar Njarðar sem birtist í Fréttablaðinu en er ekki lengur aðgengileg. Í greininni áréttar Njörður að orðið maður sé nafn á spendýrategund og eigi því við öll sem henni tilheyra. Sama eigi við þegar notuð eru kveðja á borð við allir velkomnir og taki hún til allra sem tilheyra þessari tegund án vísunar til sérstaks kyns. Síðan tekur hann dæmi af ýmsum orðum úr ýmsum tungumálum til að undirstrika að málfræðilegt kyn eigi fátt skylt með líffræðilegu kyni. Fréttina má lesa hér.
Hvaða orð nota konur um sig sjálfar?
Eiríkur Rögnvaldsson skrifar, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands 24. janúar 2022
Eiríkur kannaði sjálfslýsingar fólks í Risamálheildinni sem geymir 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, nær öllum frá þessari öld. Niðurstaðan sýndi fram á að konur nota sjaldnast samsetningar með -maður þegar þær lýsa sjálfum sér. Orðið maður er því ekki heppilegt kynhlutlaust orð og manneskja ekki heldur. Greinina má lesa hér.
Í ógöngur ef hróflað er við orðinu maður
Lára Magnúsardóttir skrifar, doktor í sagnfræði, 3. júlí 2021
Lára segir frá rannsóknum sínum á merkingu orðsins maður í aldanna rás og segir þær sýna að í lögum sé orðið hlutlaust hugtak sem geri ekki greinarmun á kynferði. Því sé hætt við að ratað yrði í ógöngur ef farið verður að hrófla um of við notkun orðsins, einkum í lögum og opinberum textum. Greinina má lesa hér.
.
.
Starfsfólksfundir í MS
Afskræming íslenskunnar?
Eiríkur Rögnvaldsson skrifar, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands 14. mars 2023
Eiríkur bendir á að orðið starfsfólk sé gott og gilt íslenskt orð sem hafi tíðkast í málinu a.m.k. frá byrjun 20. alda og starfsfólksfundur sé eðileg samsetning. Það sé rétt að orðið renni ekki jafn vel og starfsmannafundur, þarna sé fjögurra samhljóða klasi en það eigi einnig við orð eins og ólksfjöldi og fólksflutningar sem við kippum okkur ekki upp við. Eiríkur segir Það geti ómögulega verið „afskræming“ að bæta rétt mynduðu orði við málið og það sé ekki eins og verið sé að þvinga fólk til að nota orðið. Þetta snúist um að taka tillit til þeirra sem finnst orð sem enda á -maður ekki höfða til sín en konur nota sjaldnast samsetningar með -maður þegar þær lýsa sjálfum sér (sbr. grein Eiríks hér fyrir ofan: Hvaða orð nota konur um sig sjálfar). Loks segir Eiríkur að það sé augljóst að það sé ekki nýjungin sjálf, í þessu tilviki orðið starfsfólksfundur, sem veldur mestum óróa, heldur ástæða hennar, þ.e. tilhneiging og vilji til að draga úr karllægni málsins. Greinina má lesa hér.

Eiríkur segir að orðið „starfsfólksfundir“ sé eðlilegt
Ágúst Borgþór Sverrisson skrifar (frétt), 13. mars 2023
Ágúst segir frá því að tveir prófessorar emirite, þeir Eiríkur Rögnvaldsson og Njörður P. Njarðvík, séu ekki sammála um réttmæti samsetta nýyrðisins, „starfsfólksfundur“. Njörður segir þetta afskræmingu tungumálsins í skjóli rétttrúnaðar. Eiríkur bendir hins vegar á að samsetningin sé málfræðilega fyllilega eðlileg og hafnar hann því að um afskræmingu sé að ræða. Þá finnst honum viðbrögð við þessari breytingu vera langt umfram þau sem teldust eðlileg. Lesa má fréttina hér..
„Ég er maður og ég vil bara ekki láta henda mér út úr mannkyninu með þessari breytingu“
Ritstjórn DV skrifar (frétt), 13. mars 2023
Dr. Ólína Kjérúlf Þorvarðardóttir, deildarforseti við Háskólann á Bifröst, finnst það mikill skaði ef orðinu maður verði útrýmt. Henni finnst starfsfólksfundir til marks um pólitískan rétttrúnað og í raun úrkynjun tungumálsins. Ólína segist heldur hafa viljað sjá menntastofnun standa vörð um tungumálið en auðvitað ráði starfsfólk og nemendur Menntaskólans við Sund hvaða orð sé notað. Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslensku og málfarslegur aðgerðasinni, segir hins vegar að ekki sé verið að afskræma tungumálið því orðið sé rétt sett saman og ný orð auðgi tungumálið. Lesa má fréttina hér..
Afar umdeild ákvörðun menntaskóla á Íslandi: „Afskræming tungumálsins í skjóli rétttrúnaðar“
Ónefndur höfundur skrifar (frétt), 13. mars 2023
Hér eru reifaðar þær misjöfnu undirtektir sem breytingin hefur fengið. Hjá MS hafi fengist þær upplýsingar að um væri að ræða sömu breytingu og þegar öll eru boðin velkomin í stað þess að allir séu boðnir velkomnir. Þetta væri gert til þess að engin væru skilin út undan. Það væru þó skiptar skoðanir í kennaraliðinu. Nirði P. Njarðvík, prófessor emeritus, finnst þetta vera afskræming tungumálsins í skjóli rétttrúnaðar. Hann telur að menn þurfi að reyna að átta sig á því hvað orðið maður þýðir. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, segist hins vegar styðja breytinguna og skilja rót hennar. Lesa má fréttina hér.

Sjófólk, sjómenn og fiskarar
Sjófólksdagurinn
Sighvatur Björgvinsson skrifar, 18. júní 2025
Sighvatur rifjar upp þegar maður ársins varð að manneskju ársins hjá RÚV og þegar var farið að kalla konur þingkonur í stað þingmenn. Síðan bætir hann við öðrum mögulegum samsetningum til að ná utan um flóru mannlífsins. Loks leggur Sighvatur til að sjómannadagurinn verði kallaður sjófólksdagurinn. Lesa má greinina hér.
Gamalt og gott orð eða orðskrípi rétttrúnaðarreglu?
Brynjólfur Þór Guðmundsson skrifar (frétt), 5. janúar 2023
Brynjólfur fjallar um skiptar skoðanir á orðinu fiskari. Hann vísar í Facebook-færslur Ólínar Þorvarðardóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem bæði kalla orðið orðskrípi. Þá vísar hann í umfjöllun Eiríks Rögnvaldssonar sem bendir á að orðið sé fullgilt enda gamalt í málinu. Brynjólfur segir síðan sum velta fyrir sér hvernig muni fara fyrir öðrum orðum sem enda á maður og hvort einhver munur sé á orðinu fiskimaður og fiskari þar sem bæði eru karlkynsorð. Eiríkur svarar því til að orð sem enda á maður hafi óneitanlega sterk tengsl við karlmenn í huga mjög margra. Þá telur hann að orðinu fiskimaður hafi verið breytt þar sem orðið fiskari var þegar til í málinu. Loks bendir Brynjólfur á að einnig hafi orðinu útgerðarmenn verið breytt í útgerðir í lögunum. Fréttina má lesa hér.
Fiskari eða sjómaður?
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, skrifar 4. janúar 2023
Eiríkur bendir á að orðið fiskari komi í stað orðsins fiskimaður en ekki sjómaður, líkt og sum hafi haldið fram. Það sé ekki hróflað við orðinu sjómaður. Þá bendir hann jafnframt á að því fari fjarri að fiskari sé eitthvað nýyrði, það komi meira að segja fyrir í fyrstu bók sem var prentuð á íslensku, þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu 1540. Þá hafi Nanna Rögnvaldardóttir bent á að hátt í 150 séu skráðir fiskari í manntalinu 1845, en aðeins sjö fiskimaður. Þar er reyndar enginn sjómaður – elsta dæmi um það orð er ekki eldra en frá 1830, og á 19. öld var orðið sjófólk líka nokkuð notað. Lesa má greinina hér.
Bannað að tala um „sjómann“ og „fiskari“ komið í staðinn – Ólína getur ekki orða bundist
Hjálmar Friðriksson skrifar (frétt), 3. janúar 2023
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður, segist ekki geta orða bundist yfir því að orðið „sjómaður“ hafi verið tekið út úr íslenskri löggjöf. Í stað þess orðs er orðskrípið „fiskari“ komið í staðinn. Lesa má fréttina hér.

Leghafar
Um griplim og leghafa
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, skrifar 18. apríl 2023
Eiríkur rifjar upp hvernig fór fyrir orðinu griplimur en það var hugsað sem íðorð í merkingunni handleggur og hönd en það var hæðst svo mikið að því að það féll úr notkun. Hann bendir á að það gildi aðrar reglur um íðorð en þau orð sem notuð eru í almennu máli. Íðorð þurfi t.d. ekki að vera falleg því mestu máli skipti er að þau hafi skýra, ótvíræða og vel skilgreinda merkingu. Eiríkur segir líkt farið með orðið leghafi og hann áréttar að orðið eigi alls ekki að leysa orðið kona af velli heldur sé þetta íðorð til að nota í læknisfræðilegu samhengi. Eiríkur klykkir út með því að benda á að orðin leghafi og legberi hafi verið notuð í greinum þar sem ráðist sé á trans fólk eða hæðst að því, og merking þeirra og notkun skrumskæld. Greinina má lesa hér.
„Leghafi” ágætt orð en Katrín ætlar ekki að hætta að segja „kona“
Snorri Másson skrifar (frétt), 6. mars 2022
Snorri segir að sum kjósi að tala um „leghafa“ í stað „kvenna“ – eða „barnshafandi einstaklinga“ í stað „verðandi mæðra.“ Þá bendir hann á að forsætisráðherra hafi tileinkað sér sumar þessara breytinga og hefur eftir henni að hún reyni að nota tungumálið þannig að það nái utan um öll. Katrín segist finnast orðin legberi, leghafi og leghafandi einstaklingur ágæt en hún ætli ekki að hætta að kalla sig konu. Fréttina má lesa hér.
Leghafi og aðrir -hafar
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, skrifar 4. júlí 2022
Eiríkur furðar sig á umræðunni sem hefur skapast um þetta orð og vísar þar í fréttina hér fyrir ofan: „Leghafi“ ágætt orð en Katrín ætlar ekki að hætta að segja „kona“ . Eiríkur segir að auðvitað kunni fólki að finnast orðið leghafi ljótt en það sé rétt myndað og gagnsætt. Hann bendir enn fremur á að orðinu sé ekki ætlað að koma í stað orðsins kona heldur sé þetta íðorð sem ætlað er að ná utan um öll kyn sem eru með leg. Greinina má lesa hér.

Samfélagið
Kynhlutlaust klerkaveldi
Haukur Þorgeirsson, rannsóknarprófessor við stofnun Árna Magnússonar, skrifar 13. janúar 2026
Haukur Þorgeirsson svarar grein Gísla Sigurðssonar, Mál til skoðunar, sem birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2026. Þar fjallar Gísli m.a. um að ekki sé hægt að tala um málfræði óháð hinum ytri veruleika og hugmyndum um hann og „[þ]ó að klerkarnir í Íran vilji bara þurfa að tala um alla á fjöldafundum í Teheran þá eigi vel við að tala um öll á slíkum samkomum hér á landi“.. Í grein sinni bendir Haukur hins vegar á að nafnorð, lýsingarorð og fornöfn í persnesku hafi ekkert kyn og þar af leiðandi séu ræður íranska klerka á fjöldafundum fullkomlega kynhlutlausar
SUS vill stöðva afgreiðslu hælisumsókna
Ónefndur höfundur skrifar (frétt), 7. október 2025
Í fréttinni segir frá því helsta sem fram kemur í stjórnmálaályktun 48. sambandsþings SUS sem fór fram um helgina og byggir á nýsamþykktri stefnu SUS í hinum ýmsu málaflokkum. Í menningarmálum segir SUS mikilvægt að standa vörð um móðurmálið en þar kemur fram að „SUS ítrekar að mikilvægt er að það mál sem birtist í blöðum, netsíðum og öðru tengdu efni á vegum flokksins skuli vera á hefðbundnu máli en ekki „kynhlutlausu.“ Lesa má fréttina hér.
„Sælir verið þér séra minn…“ – Um kynjun og pólitíska rétthugsun í íslenskri tungu
Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri og kennari hjá Múltikúlti íslensku, skrifar 9. júní 2024
Kjartani finnst kröftunum betur varið í eitthvað annað en að berjast gegn þessari þróun í átt að kynhlutlausu máli, sem hann segir sístækkandi hóp málnotenda taka þátt í.Hann bendir líka á fordæmi úr íslenskri málsögu um breytingar sem færa megi rök fyrir að hafi verið í nafni einhvers konar pólitískrar réttlætishugsunar og tekur dæmi af þérun sem sé nánast horfin úr málinu. Kjartan segist hafa rekið tungumálaskóla í 14 ár þar sem íslenskukennsla sé lang fyrirferðarmest. Hins vegar sé það svo að ekki sé aðeins verið að kenna tungumál heldur eru þau einnig að miðla menningu og gildum sem birtast líka í tungumálinu. Í skólanum var allt kennsluefnið (sem þau framleiða sjálf) uppfært í þeim anda jafnræðis og jafnréttis sem þeim finnst skipta meira máli en hefðin. Við kennslu útskýra þau fyrir nemendum þá breytingu sem er að eiga sér stað og að þeir eigi val um að segja „allir“ eða „öll“, „sumir“ eða „sum“, o.s.frv. Lesa má greinina hér.
Kynhlutlaust mál er viðskiptalega skynsamlegt
Kristín Sigurðardóttir skrifar (frétt), 6. júní 2024
Kristín hefur eftir Andrési Jónssyni almannatengli að það sé fyrirtækjum í hag að hafa auglýsingar um viðburði og atvinnu á kynhlutlausu máli. Með því að tala máli allra kynja nái fyrirtæki til stærri hóps. Lesa má fréttina hér.
Kynhlutlaust mál bannað með lögum
Snorri Másson skrifar (frétt) 9. maí 2021
Í fréttinni er fjallað um að í Frakklandi hafi verið lagt bann við að styðjast við kynhlutlaust mál í námsefni fyrir börn. Reglurnar þykja of flóknar fyrir þau. Lesa má fréttina hér.