Ljóðabók þessi kom út á vormánuðum árið 2021 og geymir femínisk ljóð, nokkurs konar ljóðabrodda en sumir þeirra eru vísir með að stinga.

Umsagnir
„Blossi. Broddabálkur þinn er hrífandi. Ljóð er tjáningarform tilfinninga. Þessi ljóð þín loga af tilfinningum.“ (Finnur Torfi Hjörleifsson)
„Fræðandi og fyndin, klók og hugrökk, berorð og skemmtileg“ (Hanna Björg Vilhjálmsdóttir)
„Ég fíla hikleysið. Þú biðst ekki afsökunar á neinu. Þessi bók er cocky.“ (Hildur Lilliendahl Viggósdóttir)


Ljóðabókin Tásurnar kom út hjá bókaútgáfunni Sæmundi árið 2019 en hún geymir úrval ljóða eftir samnefndan ljóðahóp. Í ljóðabókinni er ort um 15 ólík þemu sem við Tásur nálgumst hver með sínum hætti.

Ljóðahópurinn Tásurnar var stofnaður af kerlingunni og varð til á haustdögum árið 2012. Í honum voru ásamt mér, Ágúst Ásgeirsson og Jóhann G. Thorarensen. Ljóðahópurinn er enn starfandi en við hann hafa bæst Einar Indra og Melkorka Matthíasdóttir en Jóhann hefur dregið sig til hlés.


Bókin kom út í október árið 2015 hjá bókaútgáfunni Sæmundi og fjallar um tvær vinkonur sem alast báðar upp í óhefðbundnum fjölskyldum. Sagan hverfist þó ekki um það heldur þau ævintýri sem þær lenda í á leið í skólann.

Fallegar myndir Bjarna Þórs Bjarnasonar prýða hverja síðu. Skoða má síðu listamannsins hér: Gallerí Bjarni Þór


Orkneyskar þjóðsögur komu út 4. september 2014 hjá bókaútgáfunni Sæmundi en þær voru þýddar tíu árum fyrr. Á frummálinu heitir bókin The Mermaid Bride and other Orkney folk tales og var hún gefin út í Orkneyjum árið 1998. Tom Muir safnaði saman sögunum og Bryce Wilson sá um myndskreytingar. Myndir Wilson fengu síðan einnig að prýða þýðinguna.   

Í Orkneyskum þjóðsögum er kynntur heillandi heimur ýmissa vætta lands og sjávar. Sumar sögunar eru kunnuglegar og áþekkar þeim sem við eigum að venjast úr íslenskum þjóðsögum en aðrar eru býsna framandi.


Ljóðin hverfast um uppgjör við fortíðina og gera atrennu að sátt við líðandi stund. Bókin kom út árið 2012, en flest ljóðin voru ort á árunum 2002-2003 þegar ég var í skemmtilegum hópi ljóðvina í Borgarnesi, Ljóðahópnum Ísabrot. Oddi Sverrisson sá um myndskreytingar, þá fimm ára gamall.


Borgfirski ljóðahópurinn Ísabrot var starfandi á árunum 2000-2004. Í honum voru ásamt mér, á mismunandi tímum þó: Finnur Torfi Hjörleifsson, sem leiddi hópinn, Björk Jóhannsdóttir, Edda Magnúsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Kristín R. Thorlacius, Ragnheiður Ásmundsdóttir, Snjólaug Guðmundsdóttir, Stefán Gíslason, Steinunn Eiríksdóttir og Sverrir Hafsteinsson.

Hópurinn gaf tvisvar út úrval ljóða: Fley og fagrar árar (2001) og Fley og fleiri árar (2002) og sömuleiðis fengu ljóðin að prýða veggi Listasafns Borgarness um stundarsakir. 


Flísar birtust á Skólavefnum 2. október árið 2015 en efnið má einnig nálgast á Framhaldsskoli.is í gegnum áskrift. Flísar þessar geyma örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks í samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Öllum sögunum fylgja verkefni og vangaveltur.

Flísar eru ætlaðar framhaldsskólum og efri bekkjum grunnskóla og kunna að henta vel í lífsleikni, íslensku, félagsfræði og kynjafræði.


Ég stofnaði vefinn Skáld.is ásamt Ásgerði Ágústu Jóhannsdóttur og var hann opnaður formlega þann 7. september árið 2017. Vefurinn er lifandi vettvangur sem hverfist um íslenskar skáldkonur og hýsir m.a. ýmiss konar skáldskap, fréttir, bókmenntagagnrýni, greinar og viðtöl. Ennfremur geymir vefurinn skáldatal, þ.e. gagnagrunn yfir íslenskar skáldkonur, ævi þeirra og verk.

Það hafa orðið breytingar á eignarhaldi vefsins og ritstjórn en nú stýra vefnum ásamt mér, Soffía Auður Birgisdóttir, Steinunn Inga Óttarsdóttir og Þuríður Magnea Ingvarsdóttir.  


Umbrot: Samskipti framhaldsskólakennara og nemenda (ásamt Hafdísi Ingvarsdóttur), birtist í Uppeldi og menntun (2008)

Í orðastað Alfífu, birtist í Skírni (2004)

Gunnhildur and the male whores, fyrirlestur haldinn á sagnaþingi (2002) og greinin á íslensku: Gunnhildur og karlhórurnar

-Sjá einnig skoðanagreinar sem sendar hafa verið á Vísi.is og finna má einnig hér.