Eiga druslur ofbeldi skilið?
Grein eftir Matthildu Ósk Ólafsdóttur
Þrátt fyrir að sagan Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns hafi verið skrifuð fyrir rúmum þrjátíu árum síðan er margt í henni sem gæti alveg hafa gerst í dag. Þar er sögð saga um konu sem drekkur illa, er hömlulaus, þráir athygli en er ekki góð í samskiptum. Annað fólk lítur niður til hennar og hún er þeim alveg sammála og telur sjálfa sig lítils virði. Þegar hún er beitt alvarlegu ofbeldi verður hún því ekki reið við geranda sinn heldur vorkennir honum og kennir sjálfri sér um.
Sagan hefst í veislu þar sem konan fer yfir mörk og meiðir aðra manneskju og hættir ekki fyrr en henni er bókstaflega hent út. Í kjölfarið er henni vísað út úr veislunni, hún er grátandi, mjög drukkin og illa klædd í kuldanum. Fötin hennar eru rifin eftir átökin. Þar sem hún er grátandi og alein í miðbænum í myrkri og kulda kemur maður sem er greinilega í góðri stöðu og ákveður að nýta sér neyð hennar. Hann býður henni heim í hlýtt hús og gefur henni mat og vín og hún er yfir sig þakklát fyrir góðmennsku hans. Fljótlega kemur í ljós að hann er ekki bara að gera þetta af góðmennsku því hann vill fá borgað til baka og hún á að borga með kynlífi. Þegar hún segist vera módel biður hann hana um að fara úr fötunum svo hann geti séð vöxt hennar. Hún kann ekki við annað en að gera það sem hann biður um en fær áfall þegar hún áttar sig á því að hann fer líka úr fötunum og ætlar sér að eiga við hana kynmök gegn vilja hennar. Hún berst eins og villiköttur undan þungum, feitum og illa lyktandi líkama hans. Hún raunverulega hafði trúað því að hann ætlaði að vera góður við sig. Líkami hennar gefst fljótlega upp og hún verður máttlaus en hún kemur upp öskri og fer að hágráta með ekka. Þá er eins og hann átti sig og hann stoppar, hún fer þá aftur í fötin sín og yfirgefur húsnæðið. Þar sem þessi kona hefur mjög lágt sjálfsmat og lítur niður á sjálfa sig eins og allir aðrir gera fer hún strax að kenna sjálfri sér um. “Alls staðar varð ég til ills. Þarna kom ég eins og djöfullinn holdi klæddur og freistaði þessa manns, sem leit út eins og postuli og var ábyggilega grandvar hversdagslega. Hafði hann kannski ekki verið góður við mig?”
Þrátt fyrir að kynbundið og kynferðislegt ofbeldi sé ennþá mjög stórt vandamál í íslensku samfélagi þá hefur þó ýmislegt breyst. Með tilkomu bæði Druslugöngunnar og samfélagsbyltinga eins og #metoo hefur fólk almennt farið að setja ábyrgð á kynferðisbrotum yfir til geranda frá þolanda. Áður fyrr var staðan þannig að ef konur voru of fáklæddar eða of drukknar eða jafnvel ef þær voru einar í kringum karla og þeim var nauðgað þá var talið að þær hefðu verið að biðja um þetta, væru druslur og ættu ofbeldið skilið.
Eitt af markmiðum Druslugöngunnar er að benda á að það skipti ekki neinu máli hvernig kona er klædd, hvort hún er drukkin eða hvað hún gerir, ef hún verður fyrir ofbeldi þá er hún þolandi og ber ekki ábyrgðina. Sá eini sem ber ábyrgð á ofbeldi er gerandi ofbeldisins (Druslugangan snýst um að gjaldfella orðið drusla, 2023).
Konan í sögunni leit á sjálfa sig sem druslu því líklega var búið að margsegja henni að hún væri það. Hún trúði áliti annarra á sér og fannst því hún hafa kallað sjálf yfir sig það ofbeldi sem karlinn beitti hana. Hann þurfti líklega aldrei að svara fyrir það sem hann gerði. Hún þráði svo innilega að fá jákvæða athygli og hlýju, frá hverjum sem er, svo strax daginn eftir þegar karlarnir á bryggjunni tóku hana inn í skúr og gáfu henni kaffi og brauð þá varð hún svo þakklát að allur dagurinn hennar varð góður og bjartur. Samt var hún enn í rifnum kjól og hana verkjaði í allan líkamann eftir nóttina.
Þó viðhorfið hafi smám saman breyst þá er því miður ennþá algengt að konum sé nauðgað í eða eftir partý þar sem þær hafa verið undir áhrifum áfengis og gerandinn hefur nýtt sér varnarleysi þeirra. Kynferðisofbeldi er kynbundið því í langflestum tilvikum er gerandi karl og þolandi kona. Því miður er gerandi mjög oft einhver sem þolandinn þekkir og treystir. Það getur tekið áratugi að vinna úr þeirri reynslu að hafa orðið fyrir kynferðisobeldi (Stígamót, 2023).
Í dag eru ýmis úrræði fyrir þolendur og meira að segja gerendur í kynferðisbrotamálum og umræðan í samfélaginu hefur að mörgu leyti breyst. En samt er ennþá alltof mikið um kynferðisofbeldi, drusluskömm og gerendameðvirkni. Flest mál eru ekki kærð og af þeim sem eru kærð eru flest látin niður falla. Margir gerendur þurfa því aldrei að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Aukin kyn og forvarnafræðsla gæti skipt sköpum í baráttunni við kynferðisofbeldi.
Heimildir:
Ásta Sigurðardóttir. (2021). Sögur og ljóð. Forlagið.
Druslugangan snýst um að gjaldfella orðið drusla. (2023, 19. júní). Feykir.is. https://www.feykir.is/is/frettir/druslugangan-snyst-um-ad-gjaldfella-ordid-drusla
Stígamót. (e.d). Sótt af https://stigamot.is