Það er ekki óvanalegt að sjá ýmiss konar dýr á götum Nairobi og í næsta nágrenni. Geitur eru víðsvegar, hænsni, apar og auðvitað fjölskrúðug flóra hryggleysingja.

Við heimsóttum tvo þjóðgarða með miklu úrvali villtra dýra, þökk sé Maasai fólkinu sem hefur lagt sig í líma við að vernda þessi dýr. Annar þjóðgarðurinn nefnist Amboseli og hinn Tsavo west.

Við gistum á hóteli í Tsavo west þjóðgarðinum sem nefnist Kilaguni Serena Safari Hotel og reyndist það vera algjör ævintýraheimur. Í tæplega 100 metra fjarlægð frá hótelinu er vatnsból sem fjöldi dýra sækir í, buffalóar, sebrahestar, fílar og gíraffar svo að fátt eitt sé nefnt.

Við heimsóttum gíraffagarð þar sem okkur bauðst að gefa gíröffunum að borða. Þeir voru alsælir með það og stungu út löngum tungunum til að grípa gotteríið.

Á þessu ævintýralega hóteli henti okkur afar sérstakur atburður. Þar sem við sátum á veröndinni og sungum undurfagra söngva gekk til okkar fíll. Hann fór í hægðum sínum frá vatnsbólinu og nánast alveg upp að okkur. Við hefðum getað rétt út höndina og snert hann. Það var mál kvenna, og manna, að söngurinn heillaði skepnuna. Hvað sem því líður þá má vera ljóst að við hinar, tvífættu, skepnurnar vorum sannarlega heillaðar af þessu magnaða ferlíki. Starfsfólk hótelsins sagði að svona nokkuð hafi aldrei gerst áður.