Harvest skólinn í Loitoktok
Masaai land
Loitoktok er í landi Masaai ættbálksins við rætur Kilimanjaro. Masaai fólkið hefur haldið mjög í forna og úrelta siði, á borð við fjölkvæni, limlestingu á kynfærum stúlkna og barnabrúðkaup. Þessir siðir eru nú ólöglegir í Kenía en það hefur ekki tekist að uppræta þá.
Hluti af starfi barnahjálparinnar á svæðinu er að veita stúlkum sem eru að flýja undan umskurði og nauðungarhjónaböndum skjól.









Skólinn
Í Harvest skólanum í Loitoktok rekur Íslenska barnahjálpin menntaskóla og heimavist fyrir 150 nemendur. Nemendurnir koma bæði frá Loitoktok héraði og Nairobi.
Þegar stúlkur ganga í skólann njóta þær algjörar friðhelgi og losna við að beygja sig undir fornar og ólöglegar siðvenjur Masaai fólksins. Skólavist drengja er jafn nauðsynleg til að uppfræða þá um eðlileg samskipti kynjanna og sjálfsögð mannréttindi.









Heimilin
Við heimsóttum fjölskyldur tveggja nemenda sem tilheyra Masaai ættbálkinum. Heimilin voru afar fátækleg og staðsett í strjálbýlli sveit sem miklir þurrkar hafa herjað á.
Í annarri fjölskyldunni var móðirin sjöunda kona eiginmannsins og dóttir hennar, nemandinn, ein af 36 systkinum. Hina stúlkuna stóð til að selja í hjónaband en Íslenska barnahjálpin náði að bjarga henni frá þeim ömurlegu örlögum.






Móttökurnar
Það var afar vel tekið á móti okkur hér sem annars staðar. Við færðum nemendum fatnað, einkum íþróttaföt og skó, og við fengum höfðinglegar móttökur þar sem innfæddir fóru á kostum. Skemmtunin var afar eftirminnileg, að fornum þjóðlegum sið hoppuðu strákarnir með tilheyrandi hljóðum, til að ganga í augun á stúlkunum.

