MIST: Nöfnin í fjölskyldu minni

Ritgerð eftir Kamillu Aldísi Ellertsdóttur (ath. að forsíðu hefur verið sleppt)

Allir heita einhverju nafni. Nafnið manns mótar mann að einhverju leyti, það sem maður heitir og hvað aðrir kalla mann. Það eru til karlkynsnöfn, kvenkynsnöfn og nöfn sem ganga fyrir bæði kyn. Sumir eru með mjög algeng nöfn en aðrir sjaldgæf. Sumar fjölskyldur eru með ættarnöfn, einnig er oft skírt í höfuð á fjölskyldumeðlimum. Ég ætla að fjalla um nafn mitt og söguna af því hvernig ég fékk það en einnig ætla ég að segja frá nöfnunum sem fjölskyldan mín ber.

Algengustu nöfnin í ættinni minni á mömmu hlið eru Konráð, Agnes og Valdís. Hvert nafn kemur þó aðeins tvisvar fyrir. Afi minn og langalangafi minn ber nafnið Konráð, amma mín og systir bera nafnið Agnes og langamma mín og mamma sem bera nafnið Valdís.

Á pabba hlið eru algengustu nöfnin í ættinni Sigurður og Ellert. Aftur er það svo að nöfnin koma aðeins tvisvar fyrir. Langalangafi og langafi minn bera nafnið Sigurður og svo bera langalangafi og og pabbi minn nafnið Ellert. Það er frekar algengt að skíra í höfuðið á ættingja innan fjölskyldunnar og þetta eru alls fimm nöfn sem tólf manneskjur bera í ættinni minni.

Ég heiti Kamilla Aldís og var ekki skírð í höfuðið á neinum, heldur skírðu foleldrar mínir mig út í bláinn. Þeim fannst nafnið mitt fallegt og það er aðallega ástæðan fyrir þessari ákvörðun. Einnig langaði þau að nafnið mitt myndi byrja á stafnum K, þar sem þeim fannst nöfn sem byrja með K svo falleg og af því að systir mín heitir Katrín Agnes. Þau sáu því að við myndum báðar bera sömu skammstöfunina KAE. Það er ekki beinlínis nafnahefð í fjölskyldunni en gæti orðið það ef ég og systir mín skírðum börnin okkar nöfnum sem byrja á sömu stöfum. Mamma og pabbi eru bæði skírð í höfuðið á ömmu sinni og afa.

Nafnið Kamilla er upprunalega skrifað með C og kemur frá Norðurlöndunum. Nafnið Camilla var búið til út frá karlkynsnafninu Camillus. „Árið 1910 báru 16 konur nafnið, þar af átta að síðara nafni […] Uppruni nafnsins er óviss og ekki talinn latneskur, hugsanlega etrúskur. Camilla merkir ung stúlka sem aðstoðaði við helgiathafnir“. (Guðrún Kvaran, 2011, bls. 363)

Síðan þá hefur nafnið Kamilla breiðst út og samkvæmt Hagstofu Íslands eru 237 konur sem bera nafnið sem fyrsta nafn og 44 sem bera það sem annað nafn. Hins vegar er ég sú eina á Íslandi sem heitir Kamilla Aldís. Einnig eru aðeins tvær konur á Íslandi sem heita nafni systur minnar sem er Katrín Agnes, en það eru 1861 konur sem bera Katrín sem fyrsta nafn og 856 sem bera það sem annað nafn. (2023, 01. janúar)

Ég spurði mömmu mína hvernig ég fékk nafnið mitt og hún sagði mér frá því að ég fæddist í Noregi en flutti til Íslands þegar ég var átta mánaða. Þar eru börn nefnd á sjúkrahúsinu áður en þau fara heim. Þar fékk ég nafnið Kamilla Mist og var það skráð á fæðingarvottorðið mitt. Heima á Íslandi vissi enginn nafnið mitt því þar var það leyndarmál fram að skírn. Þegar mamma og pabbi voru síðan spurð af vinum í Noregi hvað ég héti var þeim frekar brugðið við nafninu Mist. Það var vegna þess að Mist er ekki nafn í Noregi og þýðir það að missa einhvern. Þar sem ég var ekki ennþá skírð tóku mamma og pabbi þá ákvörðun að breyta nafninu mínu úr Kamilla Mist í Kamilla Aldís. En það var ekki eins auðvelt að breyta því í Noregi og þau héldu, heldur þurftu þau að vera með löggilda ástæðu til að mega það. En það tókst að lokum með því að búa til sögu um að Aldís væri íslenskt ættarnafn. Á fæðingarvottorðinu mínu stendur núna Kamilla Mist og strikað yfir nafnið Mist og fyrir aftan stendur Aldis með „i“. Ég hét það líka í íslenskri þjóðskrá í nokkur ár eftir að við fluttum heim. En það tókst loksins að breyta því og í dag heiti ég í þjóðskrá Kamilla Aldís. (Valdís Konráðsdóttir, munnleg heimild, 9. janúar, 2024)

Hér fyrir ofan var ég að segja frá nafninu mínu og sögu þess, einnig frá nöfnum fjölskyldunnar minnar og algengi þeirra bæði innan fjölskyldunnar og á Íslandi. Nafnið mitt var valið út í bláinn og það merkir ung stúlka sem aðstoðaði við helgiathafnir. Mögulegar nafnahefðir gætu orðið til seinna meir. Það er frekar áhugaverð saga á bak við það hvernig ég fékk mitt nafn og skemmtilegt að segja frá því að ég er sú eina á landinu sem heitir Kamilla Aldís.

Heimildaskrá

Guðrún Kvaran.(2011). Nöfn Íslendinga. Heimskringla.

Hagstofa Íslands. (2023. 01. janúar). Hversu algengt er nafnið. https://hagstofa.is/talnaefni/ibuar/faeddir-og-danir/nofn/