Brot úr rannsókn – dæmi um sviðsetningu:

[…]

Leiðin liggur beinan veg upp að dvalarheimili fyrir aldraða. Þegar á leiðarenda er komið læðist rannsakandi hljóðlega inn í setustofu heimilisins. Honum er fagnað, fólki þykir vænt um hann. Þátttakandi 3 kippir sér þó ekkert upp við að ungur drengstauli sé mættur til þess að raska friðnum og rónni sem lá í loftinu áður en boðflennan / rannsakandi mætir í húsið. Þátttakandi 3 er tíræður að aldri og þykir góður kunningi rannsakanda, en með hverjum degi hrörnar heilastarfsemi hans og æ fleiri minningar hverfa út í tómið endalausa.

Rannsakandi hefur við þátttakanda 3 spjall og reynir eftir bestu getu að lífga upp á öldunginn. Spyr rannsakandi út í gamla tíma og þá lifnar heldur betur yfir þeim gamla. Skeiðklukkan byrjar að tikka 1,2,3. ,,Þegar ég var ungur að aldri hafði ég yfirumsjón með öllu, ég sá um heyskap og veiddi mér til matar“ og þannig er samræðunum hagað. Rannsakandi hættir að spá í hikorðin því að frásagnar- og málkunnátta þátttakanda 3 eru af guðs náð. Ekki eitt hikorð kemur upp í þessum tilteknu samræðum. Rannsakandi skreppur frá í örfáar sekúndur en þegar komið er til baka er öldungurinn sofnaður.

Leiðir skiljast og er rannsakandi staðsettur í Menntaskólanum við Sund, nánar tiltekið er hann á bókasafninu. Þar er hann með kollega sínum sem er 18 ára drengur. Skeiðklukkan er ávallt meðferðis, en þátttakandi 4 hefur ekki hugmynd um að þessar einföldu samræður um lífið og tilveruna eru rannsóknarefni. Þegar að ein mínúta er flogin á brott er ljóst að þátttakandi 4 hefur gert sig sekan um að nota se. hikorð á einni mínútu. Samræður eru á enda og kveðjast þeir með handabandi. Þögn ríkir inni á bókasafninu þangað til að ungur, villtur nýnemi, þátttakandi 5, ryðst inn og afsakar kliðinn sem fylgir komu hans. Rannsakandi stekkur á tækifærið og segist vera að gera könnun fyrir hagfræði og hvort hann sé ekki tilbúinn að svara örstuttum spurningum. Umlar hann eitthvað út i loftið, svolítið efins, en að lokum er hann klár í slaginn. Rannsakandi býr til spurningar á stað og stund. Viðtalið hefst, þykir það mjög leiðinlegt og ruglingslegt en hikorðin eru sex talsins að lokinni einni mínútu.

[…]