Nöfnin í fjölskyldu minni

Ritgerð eftir Pétur Gunnarsson (ath. að forsíðu hefur verið sleppt)

Inngangur

Nöfn geta verið allskonar, stutt, löng, framarlega í stafrófinu og aftarlega. Sum nöfn eru falleg og önnur ljót og fer það eftir smekk manna hvað hverjum og einum finnst. Mér finnst það vera mikil ábyrgð að skíra börn eða gefa þeim nöfn því nafn manneskju er eitt af því fyrsta sem maður fær að vita um áður óþekkta manneskju og maður tengir hana oft við nafnið sem hún ber. Einnig þykir mörgum mjög vænt um nafnið sitt. Í þessari ritgerð verður meðal annars fjallað um nöfn og nafnahefðir í minni fjölskyldu og hversu algeng þessi nöfn eru á Íslandi.

Lýður eða Pétur

Nafn mitt er Pétur Gunnarsson. Á meðgöngu minni voru foreldrar mínir búnir að ákveða að skíra mig Lýður en þegar ég fæddist þá hættu þau við það af því að þeim fannst það ekki passa við mig. Mamma var búin að segja ömmu minni að hún ætlaði að skíra mig Lýður og henni brá því mjög í skírninni þegar presturinn spurði hvað barnið ætti að heita og svarið var: „Pétur“. Amma var mjög hissa fyrst en varð fljótt mjög sátt við þetta nafn (Arna Björk Jónsdóttir, munnleg heimild, 21. janúar 2024).

Ég er mjög feginn að ég fékk nafnið Pétur frekar en Lýður. Föðurafi minn hét Stefán Pétur. Það var þó ekki þess vegna sem ég fékk nafnið Pétur en foreldrum mínum þykir samt vænt um að ég heiti sama seinna nafni og afi. Ég fékk nafn mitt innan sex mánaða eftir fæðingu eins og lög um mannanöfn kveða á um (1996). Það kom prestur heim til okkar og það var haldin stór og mikil skírnarveisla.

Ég hef alltaf verið ánægður með nafnið mitt og hef aldrei hugsað um að breyta því þó að það sé hægt samkvæmt lögum. Mér finnst líka gott að það sé til sérstök mannanafnanefnd sem getur hafnað nöfnum ef einhver skildi vilja skíra barnið sitt mjög furðulegu eða óviðeigandi nafni (Lög um mannanafnanefnd, 1996).

Heita margir Pétur?

Nafnið Pétur kemur fyrir í Landámu og Sturlungu og í bréfum frá 14. og 15. öld. Í manntalinu frá 1703 voru 248 karlar skráðir með þessu nafni en 235 árið 1801. Árið 1910 voru nafnberar 585 auk þess sem þrír karlar hétu Peder og fimm Peter, allir að síðara nafni (Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson, 1991, bls. 449).

Samkvæmt Hagstofu Íslands í byrjun janúar árið 2023 eru 1556 sem bera nafnið Pétur sem 1. eiginnafn og 772 sem bera nafnið Pétur sem 2. eiginnafn (Hagstofa Íslands, 2023).

Nafnið Pétur er þekkt víða

Nafnið Pétur „er þekkt um öll Norðurlönd, á Englandi og í Þýskalandi. Nafnið er komið úr latínu Petrus, grísku Pétros, af grísku pétra, pétros ‘steinhella, klettur’, sem er þýðing á arameíska viðurnefninu Kefas. Þekktasti nafnberi er án efa Pétur postuli. Í Jóhannesarguðspjalli (1:42) segir frá því er farið var með Símon Jóhannesson til Jesú sem sagði við hann: „Þú skalt heita Kefas (Pétur, það þýðir klettur).” Í forníslensku koma einnig fyrir nafnmyndirnar Petarr og Peturr“ (Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson, 1991, bls. 449).

Algengustu nöfn í minni fjölskyldu

Það er mjög algengt að börn fái millinöfn en mömmu og pabba fannst það ekki þurfa með mig. Yngri bróðir minn fékk aftur á móti tvö nöfn. Hann var skírður Jón Grétar eftir móðurafa okkar en systir pabba stakk upp á því nafni (Arna Björk Jónsdóttir, munnleg heimild, 21. janúar 2024). Jón er algengasta nafnið á Íslandi og hefur verið það um aldir. Í fyrsta manntali sem tekið var á Íslandi 1703 hét fjórði hver maður á landinu Jón (Guðrún Kvaran, 2000).

Við fyrstu sýn eru engar sérstakar nafnahefðir í minni fjölskyldu en þegar nánar er gáð, þá bera samt margir sama nafn. Í pabba fjölskyldu heita mjög margir Stefán, Gunnar og Eggert og í mömmu fjölskyldu þá heita mjög margir Jón og bera nafnið Grétar sem seinna nafn.

Niðurstöður

Þrátt fyrir að það séu engar meðvitaðar nafnahefðir í minni fjölskyldu þá kom í ljós við gerð þessarar ritgerðar að það heita mjög margir sama nafninu eins og Stefán, Gunnar, Eggert og Jón. Það eru ekkert mjög margir sem heita sama nafni og ég á Íslandi en í fyrra voru það 1556. Nafn bróður míns er aftur á móti vinsælasta nafn á Íslandi og hefur verið það í aldir. Nafnið mitt þýðir klettur og mér fannst fróðlegt að vita söguna á bak við það hvernig það kom frá Grikklandi.

Mér finnst jákvætt að hægt er að breyta nafninu sínu samkvæmt lögum um mannanöfn og að það er sérstök nefnd sem getur bannað þér að skíra barnið þitt óviðeigandi nafni. Ég fann líka út ýmislegt um mína fjölskyldu við að tala við mömmu og pabba eins og af hverju ég var skírður Pétur en ekki Lýður sem var einfaldlega út af því að þeim fannst það ekki passa mér. Þegar ég eignast börn gæti ég hugsað mér að nota nafnið Grétar eða Gréta og viðhalda þannig nafnahefðinni sem er að myndast í fjölskyldunni.

Heimildaskrá

Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson. (1991). Nöfn Íslendinga. Heimskringla.

Guðrún Kvaran. (2000, 17. ágúst). Hvert er algengasta nafn á Íslandi? https://www.visindavefur.is/svar.php?id=825

Hagstofa Íslands. (2023, 1 janúar). Upplýst samfélag- Hversu algengt er nafnið? https://hagstofa.is/talnaefni/ibuar/faeddir-og-danir/nofn/

Hagstofa Íslands. (2023, 1 janúar). Eiginnöfn karla. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__Faeddirdanir__Nofn__Nofnkk/MAN11101.px