Helstu hugtök
Ingólfsskáli, mynd tekin af heimasíðu veitingastaðarins

Sitja í festum
Haft um konu sem bíður brúðkaupsdags síns. Hún situr þá í raun föst á meðan.
Dæmi: Unnur situr þrjá vetur í festum – bíður eftir Hrúti á meðan hann fer til Noregs að ná í arf sinn.

Heimanfylgja/ heimanmundur
Meðgjöf (t.d. peningar og/eða jarðir) sem brúður fær með sér að heiman þegar hún gengur í hjónaband.
Dæmi: Peningarnir sem fylgdu Unni í hjónaband hennar og Hrútur hélt eftir. Gunnar náði þeim síðan af honum.

Eggjun
Hvatning til aðgerða. Oftast voru þetta konur sem eggjuðu menn til hefnda, þ.e. fengu þá til að hefna fyrir sig.
Dæmi: Hallgerður og Bergþóra eggja húskarla sína til hefnda

Fylgja
Skv. þjóðtrú: Draugur eða andi sem fylgir manni eða boðar komu hans.
Dæmi: Höskuld dreymdi fylgju Gunnars á Hlíðarenda sem reyndist vera björn.

Forspár
Sá sem sér fyrir óorðna hluti, sem hefur spádómsgáfu, líkt og spákona.
Dæmi: Hrútur og Njáll eru forspáir. Þeir sjá inn í framtíðina.

Atgeir
Vopn til að höggva og stinga með, höggspjót.
Dæmi: Gunnar á Hlíðarenda eignast atgeir í bardaga við Hallgrím í Noregi


Girndarráð
Hjónaband sem er stofnað til af ástríðu (manneskjurnar girnast hvor aðra).
Dæmi: Hrútur kallar ákvörðun Gunnars á Hlíðarenda og Hallgerðar að giftast girndarráð.

Taðskegglingur
Tað er þornaður skítur úr sauðfé og hestum. Taðskegglingur merkir því í raun skítaskegg.
Dæmi: Taðskegglingar er notað um syni Njáls. Þar sem Njáll er skegglaus en synir hans skeggjaðir hljóta synirnir að hafa makað skít framan í sig til að ná fram sprettu, rétt eins og skítur er notaður sem áburður til að ná fram grassprettu.

Goðorðsmaður/ goði
Goðar voru helstu höfðingjar landsins á tímum þjóðveldis/ goðaveldis (930-1262/64). Þeir réðu yfir liði manna sem kölluðust þingmenn og áttu að styðja goðann og í staðinn átti goðinn að vernda menn sína.
Dæmi: Valgarður grái og Mörður sonur hans. Höskuldur Hvítanessgoði.

Fífla
Plata einhvern til kynlífs, fá einhvern til að sofa hjá sér. Á tímum Njálu var litið alvarlegum augum að stunda kynlíf utan hjónabands.
Dæmi: Þorgeir Otkelsson fíflar Ormhildi, frænku Gunnars, og Hrappur Örgumleiðason fíflar Guðrúnu, dóttur Guðbrands í Dölum.

Knérunnur
Ættarlína, grein ættar.
Að höggva/vega í sama knérunn merkir að gera það sama aftur.
Dæmi: Njáll varar Gunnar á Hlíðarenda við því að vega aftur í sama knérunn en Gunnar gerir það nú samt þegar hann hefur drepið bæði Otkel og son hans, Þorgeir Otkelsson.

Rógur
Ósatt, illt umtal. Lygar.
Dæmi: Mörður ber róg/lygar á milli Njálssona og Höskuldar Hvítanesgoða til að skapa illindi og helst dauða.

Frændi
Sama merking og í dag en einnig önnur skyldmenni og vini (sbr. friend).
Dæmi: Höskuldur kallar hálfbróður sinn, Hrút, frænda. Njáll kallar son sinn, Helga, frænda. Skarphéðinn kallar vin sinn, Gunnar, frænda.

Fyrirburður
Undarlegur atburður, sem ekki er hægt að útskýra, sem gerist á undan einhverjum stórum atburði.
Dæmi: Fyrirburðir fyrir brennuna á Bergþórshvoli, eins og þegar Sæunn vill losna við arfasátuna og Njáll sér blóð um alla stofu.

Feigð
Dauðinn er nálægur. Ef maður var feigur þýddi það að hann myndi deyja og gat ekkert breytt því.
Dæmi: Þegar Njáll vill ganga inn í bæinn þegar brennumenn nálgast segir Skarphéðinn að Njáll sé feigur.