Hér verður leitast við að halda til haga ýmsu fræðilegu efni sem styður við skólastarf, einkum tengt starfendarannsóknum.

  1. Fáein orð um starfendarannsóknir
  2. Starfendarannsóknir kerlingar
    1. Að fást við eða slást
    2. Tjáning en ekki þjáning
    3. Viðhorf til náms
Mynd: JGT


Fáein orð um starfendarannsóknir

Lengst af voru rannsóknir gerðar á kennurum. Akademískir fræðimenn rannsökuðu kennsluna og leituðust við að finna út hvaða athafnir kennarans gáfu bestan árangur. Síðan tók áhugi fræðimanna að beinast frá atferli kennara og á hugsun hans.  Rannsóknarspurningar fóru að snúast t.d. um hvað réði því að kennarinn gerði eitt en ekki annað. Kennararannsóknir fóru þó í auknum mæli að fela í sér samstarf við kennarann. Í starfendarannsóknum er stigið skrefinu lengra þar sem kennarinn rannsakar eigið starf.  Talsmenn starfendarannsókna telja að það sé einfaldlega ekki hægt að skilja kennslu af þeirri dýpt sem nauðsynleg er til að geta bætt hana nema kennarar komi að málinu og skoði sjálfir starf sitt með kerfisbundnum hætti.

Jean McNiff er prófessor í menntarannsóknum við St. John University í York.  Hún á að baki yfirgripsmikil skrif um starfendarannsóknir og hefur unnið með kennurum að slíkum rannsóknum í meira en tvo áratugi. McNiff lítur svo á að rannsóknarferlið og starfið séu eitt, það er samtvinnað.  Enda nálgist kennsla það oft að vera starfendarannsókn, einkum ef kennaranum er umhugað um að þróa starfshætti sína og læra af reynslunni.

Starfendarannsókn er því ákveðin aðferð til að endurskoða starf sitt með það fyrir augum að bæta það eða fá fullvissu fyrir að kennari sé á réttri leið. Allir geta gert starfendarannsókn, með því að hugsa vandlega um eigið starf, með n.k. sjálfsskoðun (self-reflective), í félagi við aðra sem eru einnig að vinna starfendarannsókn.

McNiff lítur ekki á starfendarannsókn sem röklegt ferli heldur spíral þar sem vel er hægt að byrja á einum stað og enda á öðrum, mjög ófyrirséðum – enda skiptir ferlið meginmáli.

Það má fræðast meira um Jean McNiff á heimasíðu hennar.

Hér má kynna sér starfendarannsóknir í Menntaskólanum við Sund


Starfendarannsóknir kerlingar

Þessi rannsókn var meistaraverkefni mitt í kennaranáminu og unnin samhliða fyrstu skrefum mínum í kennslu. Mér bauðst í kjölfar æfingakennslunnar í Menntaskólanum við Sund að kenna tveimur bekkjum skólaárið 2005-2006 og ákvað að spyrða henni saman við meistaraverkefnið mitt. Úr varð að skoða samskipti mín við annan hópin en fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á mikilvægi góðra samskipta milli kennara og nemenda og jákvæð áhrif þeirra á nám. Þessi rannsókn reyndi talsvert á en var einnig mjög lærdómsrík. Úr varð grein sem ég skrifaði í samstarfi við leiðbeinanda minn, Hafídisi Ingvarsdóttur, og birtist í Uppeldi og menntun árið 2018.

Kynning rannsóknar á ráðstefnu RKHÍ 2006

Kynning rannsóknar í Háskóla Íslands 2007


Þessa rannsókn gerði ég samhliða tjáningarkennslu í einum af bekkjum mínum vorið 2009. Tjáning fyrir framan hóp af fólki reynist mörgum erfið og má trúlega kenna um fyrst og fremst æfingaleysi en margt annað kann að spila inn í. Það er mikilvægt hverjum og einum að geta tjáð sig við hvers kyns aðstæður, að rödd hvers og eins fái að heyrast.

Hér má nálgast stutta kynningu á rannsókninni frá árinu 2010:


Þetta er nýjasta rannsóknarefni mitt og það sem mér er hvað hugleiknast þessi misserin. Viðhorf til náms, og alls annars, getur skipt sköpum. Fjallað er nokkuð um þetta í bókinni Leiðsagnarnám eftir uppeldis- og menntunarfræðinginn Nönnu Kristínu Christiansen. Þar eru t.d. kynnt mikilvæg hugtök á borð við fastmótað og vaxandi hugarfar. Ég sauð efni mitt upp úr þessari bók og vann síðan rannsóknina í nánu samstarfi við Björk Erlendsdóttur námsráðgjafa.

Kynning á samstarfsverkefni íslenskukennara og námsráðgjafa 2023